150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[16:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Við leggjum til að það skuli ekki vera undanskilið skráningu, skráningarskyldu, að skrá skuldir og ábyrgðir vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, skuldir og ábyrgðir vegna bifreiða til eigin nota og skuldir og ábyrgðir vegna námslána eða lána við viðskiptabanka, sparisjóða og aðrar lánastofnanir sem og gjafir og hlunnindi undir 50.000 kr. verðmæti. Við leggjum til að þetta verði skráð en ekki birt til að sjálfstæð nefnd sem raunar er búið að fella eða þá forsætisráðherra, fyrst hún ætlar að taka að sér þetta hlutverk, geti haft eftirlit með því að ekkert óeðlilegt eigi sér stað í hvers konar lánafyrirgreiðslum sem mögulegir embættismenn hafa fengið sem eru á skjön við það sem almenningi almennt býðst á. Okkur finnst rétt að þetta sé skráð þótt við sjáum alveg sjónarmið fyrir því í hendi að þetta sé ekki endilega birt. Við leggjum því til að fella brott þessa undantekningar á því að það þurfi ekki að tilkynna um þessa hluti vegna þess að við þekkjum alveg dæmi þess að íbúðalán og brask í kringum þau hafi þótt bera merki um spillingu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)