150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta mál fer inn í mína nefnd og hæstv. forsætisráðherra kom því áleiðis áðan að hún teldi ekki rétt að við töluðum við einhverja sérhagsmunaaðila um efni þessa frumvarps. Ég er ekki alls kostar sammála því. Ég tel t.d. að það að hæstv. fjármálaráðherra hafi leitað eftir áliti frá fjármálaráði sé ekki það sama og að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fái álit ráðsins. Mér finnst það allt annar handleggur og vildi gjarnan heyra hvernig hæstv. forsætisráðherra hugnist það. Mér finnst allt í lagi að við fáum að ræða við þetta óháða ráð um þetta fyrirkomulag og skynsemina í því.

Sömuleiðis vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort henni finnist ekki skjóta svolítið skökku við að óska eftir því að þingið flytji samkomudag sinn og að við verðum við því, en að þingið fái svo ekki að vita hver kosningadagur er. Er ekki kominn tími til að upplýsa okkur öll um það?