150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

atkvæðagreiðsla með yfirlýsingu, svör við fyrirspurnum.

[15:29]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill segja að það er viðvarandi viðfangsefni að ganga eftir því að svör berist. Mæðir þar mest á þingfundaskrifstofu sem er í þeim samskiptum. Það er jafnan svo að haldið er utan um hvaða svör hafa borist og hve langt er síðan svör bárust. Við höfum einnig lagt mikla áherslu á að ráðuneytin sæki um frest, en á því voru veruleg frávik hér á árum áður. Það hygg ég að sé komið í betra lag, að nú sé almennt sótt um lengri frest en það ekki bara hunsað ef svör berast ekki á réttum tíma.

Hitt er alveg rétt, því miður, að orðinn er umtalsverður dráttur og hefur farið vaxandi undanfarin þing á því að svör berist við fyrirspurnum og jafnvel þannig að þau berast alveg fram undir haust. Það er svo sem mögulegt að útbýta svörum þótt þing sé ekki að störfum, þannig að þrátt fyrir gott tilboð um að halda uppi fundum þangað til svör eru komin þarf þess ekki í sjálfu sér. Það er hægt að senda okkur svörin þó að þingfundir standi ekki.