150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[19:54]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

(Forseti (SJS): Hv. þm. Jón Þór Ólafsson gerir grein fyrir atkvæði sínu. Það væri ágætt að vita af því fyrir fram.)

Forseti. Menn biðja um orðið á daglegum forsendum undir þessum kringumstæðum og þurfa ekki að gera það fyrir fram.

Um reglugerðarheimild í 8. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal setja í reglugerð nánari fyrirmæli um skilyrði fyrir framlögum úr Orkusjóði, undirbúning úthlutunar, lánveitingar …“

Þetta ákvæði býður áfram upp á freistnivanda ráðherra sem setur reglur um skilyrði fyrir úthlutun og framfylgir svo þeim ákveðnu reglum um lokaúthlutun. Hann setur reglurnar og skipar síðan stjórnina. Einn skipar stjórnina. Á endanum samþykkir hann það sjálfur. Það þýðir bara að ráðherra er með gríðarlega mikið vald um úthlutun úr sjóðnum í eigin höndum og að sjálfsögðu getur hann freistast. Kannski freistast núverandi ráðherra ekki til þess en það kemur annar ráðherra á eftir honum. Þarna er freistnivandi sem við ættum að skjóta loku fyrir eða takmarka. Það væri hægt að gera það sama og við gerðum um Matvælasjóð með því að setja fagráð sem ráðherra verður að ráðfæra sig við (Forseti hringir.) í ferlinu. En það er ekki sá vilji hérna. Sjáum til hvernig verður farið með sjóðinn.