150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

vörumerki.

640. mál
[19:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er breytingartillaga um það að þó að í greininni sjálfri sé talað um lit og form o.s.frv. sé lykt og bragð ekki nefnt sérstaklega. Það kemur fram í greinargerðinni að ef frumvarpið verður að lögum samkvæmt dómi frá Evrópusambandinu þá fellur lykt og bragð undir vörumerki og félagamerki sem þýðir að við erum að opna dyrnar á þann möguleika og við vitum hvernig það vindur upp á sig. Við vitum hvernig það er t.d. hægt að hafa einkaleyfi á genum, m.a. genum sem valda brjóstakrabbameini og ef einhver ætlar að rannsaka það þarf að borga fyrir það. Það bjóst enginn við því en þegar dyrnar eru opnaðar á svona lagað þá vindur það upp á sig.

Það eina sem við leggjum til er að lykt og bragð sé undanskilið þegar kemur að því að menn geti gert það að félagamerkjum sínum. Við Píratar, ef þetta verður að lögum, eigum örugglega eftir að drífa okkur í að fá bjórlyktina sem lykt sem einkennir Pírataflokkinn. Vinstri græn, hvað er það, beiskjan, beiska bragðið? Nei, ég veit það ekki. En ég veit alla vega að Gunnar Bragi Sveinsson hefur sagt mér að hann ætli að fá hestalyktina fyrir Miðflokkinn. [Hlátur í þingsal.]