150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:47]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er með athyglisverðustu andsvörum sem ég hef heyrt frá því að ég tók sæti á þingi og ekki vantaði nú orðanotkunina.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hver hefur reynslan verið af því að hafa aukið fé í Strætó til að reyna að hvetja fólk til að sækja (BLG: Góð.) og nota Strætó? Hún er góð, segir hv. þingmaður. (Gripið fram í: Og Bergþór Ólason sagði það líka hérna.) Það hefur sýnt sig að aukningin er engan veginn nægileg miðað við þá fjármuni sem settir eru í það. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, að íbúar komi til með að nýta sér borgarlínu, sem kostar verulegar fjárhæðir og ríkissjóður er að setja 50 milljarða í? Við sjáum hvernig er með Strætó. Það hefur ekki borið árangur. Árið 2012 notuðu 4% Strætó og í dag enn 4%. Það er engin aukning. En hvað erum við búin að setja marga milljarða í það verkefni? Þannig að þó að einhverjar sviðsmyndagreiningar liggi fyrir þá veit hv. þingmaður vel að þær eru ekki alltaf réttar og við höfum séð það í fjárlaganefnd. Hv. þingmaður hefur kallað eftir fleiri sviðsmyndum vegna þess að hann hefur ekki getað sætt sig við þær sem við höfum lagt fram í fjárlaganefnd. Er það ekki rétt, hv. þingmaður? Ég hef svo sem tekið undir það með honum að það er mjög mikilvægt að hafa fleiri en eina sviðsmynd en hér trúir hv. þingmaður bara blint á að þetta muni allt ganga upp af því að einhver ein sviðsmynd segir það. En ef við horfum á reynsluna er hún allt önnur ef við horfum t.d. á Strætó. Ég er bara engan veginn sannfærður um það, hv. þingmaður, að höfuðborgarbúa muni flykkjast í þessa borgarlínu sem (Forseti hringir.) enginn veit hvernig á að líta út.