150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[21:59]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir þessar spurningar, hvort ég aki tóma vegi og hvort ég sjái lausn á þessu. Nei, ég sé ekki lausn á því hvernig við getum aukið notkun fólks á almenningssamgöngum, ég sé það ekki. Við höfum gert tilraunir, þ.e. stjórnvöld, til að auka notkun á almenningssamgöngum. Ég sá einhvers staðar rannsókn á því hvernig það gengi og afraksturinn var, miðað við það fjármagn sem í það var sett — og þið kannist kannski við þessa tilraun eða innspýtingu til að reyna að efla almenningssamgöngur — að helstu niðurstöður, miðað við það sem ég sá, voru að árangurinn er harla lítill og langt undir því sem má gera kröfu um að þegar fjármagnið er slíkt. Nú er verið að ganga enn lengra að mínu mati. Það er verið að fara í framkvæmd sem kallast borgarlína og fáir vita nákvæmlega hvernig lítur út og hvernig á að útfæra og hvað hún mun kosta og yfirleitt bara hvernig hún á að vera. Ég held að þeir séu ekki margir, ef það væri nú gerð könnun á því meðal borgarbúa, sem vita nákvæmlega hvernig hún að vera, hvers lags vagnar verða og hvernig því verður háttað og hvað það mun kosta, sem er kannski aðalmálið. Hér er verið að fara í 15 ára vegferð með algjörlega óútfylltar ávísanir. Það á bara að fylla þær út jafnóðum. Ríkisstjórnin ætlar sem sagt að elta meiri hlutann í borginni inn í þessa vegferð, að fara út í framkvæmd sem er í algjörri óvissu og algjörri þoku.

Ég hef ekki lausn á því, hv. þingmaður, hvernig við getum eflt almenningssamgöngur. Ég hef það ekki. Ef ég hefði það væri ég kannski að vinna við eitthvað annað.