150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[22:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta orð sem kom hér fram.

Ég veit eiginlega ekki alveg hvar ég á að grípa niður fyrst vegna þess að svo margt kom fram í þó stuttri ræðu hv. þingmanns sem þarf athugunar við að ég kem því ekki fyrir í einu andsvari. Mig langar fyrst að vekja athygli þeirra sem eru að horfa á ummælum sem hv. þingmaður lét falla áðan sem voru á þessa lund: Skoðanir Miðflokksmanna í málinu skipta ekki máli, þeir eru einir á móti því. Nú þarf ég að spyrja hv. þingmann — og þetta er væntanlega til á upptöku, herra forseti, þannig að ég vænti þess að það komi þá í ljós — fyrir hönd allra þeirra sem eru að horfa á útsendinguna: Er það túlkun hv. þingmanns á lýðræðinu, að þeir sem eru ekki sammála henni skipti engu máli, að skoðanir þeirra skipti ekki máli? Er það þannig sem hv. þingmaður lítur á lýðræði, að það sé bara tekið frá fyrir einhvern ákveðinn hóp sem er á réttri skoðun? Þessu verðum við að fá svar við, herra forseti.

Það kom fram í máli hv. þingmanns að það yrðu bara lagðir rauðir dreglar út um alla borg og strætó myndi renna eftir þeim eins og ekkert væri. Þá verð ég að spyrja hv. þingmann: Hvar eiga þessir rauðu dreglar að vera og á hvers kostnað? Aðalæðarnar í Reykjavík eru í mjög þröngu umhverfi og ekki gott að koma fyrir þar aukaakrein nema þá að ryðja niður húsum eins og t.d. blokkinni á horni Lönguhlíðar og Miklubrautar, sem er verðlaunaður arkitektúr frá 1947. Er það það sem hv. þingmaður vill gera og leggja þar rauðan dregil fyrir strætó í staðinn? Þessu þarf líka að svara, herra forseti. Ég óska svars núna.