150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

um fundarstjórn.

[12:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég rétt missti af lokum fundar í velferðarnefnd í gær þar sem sá hrikalegi atburður átti sér stað að meiri hluti nefndarinnar ákvað að halda annan fund í dag í þeim tilgangi að taka út mál sem verið hefur í meðförum nefndarinnar í marga mánuði. Það var nú allt hneykslið. Ég verð að segja það, í ljósi ummæla sem hér hafa fallið, að stjórnarandstaðan á þessu þingi, eða hver sem er á þessu þingi, á ekki að láta það koma sér á óvart þó að meiri hluti nefndar ákveði á einhverjum tímapunkti, þegar mál hefur fengið margra mánaða umfjöllun í nefndinni, að taka það út. Að álíta að það séu einhver svik eða brot á lýðræðisvenjum eða eitthvað þess háttar finnst mér fulldjúpt í árinni tekið. Það er auðvitað þannig að þó að það sé eðlilegt að meiri hluti og minni hluti ræði saman þá er það ekki þannig að minni hlutinn ráði.