150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að horfa til þess að alþjóðasamningar og alþjóðasamstarf er Íslendingum gríðarlega mikilvægt. Ég hef verið alveg skýr um að við eigum að gera sem mest af því. Það er engin spurning. Ég hef hins vegar leyft mér að segja að um alla samninga sem við skrifum undir, hvort sem það er EES-samningurinn eða eitthvað annað, eigi að vera umræða um það hvort hann hafi þróast í eðlilega átt, hvort hann hafi breyst með einhverjum hætti. Er hann jafn hagstæður og hann var áður, þarf að endurskoða eitthvað í honum eða ekki? Við eigum að vera óhrædd við að taka þá umræðu. Ég er ekki viss um að niðurstaðan sé endilega sú að við eigum að breyta einhverju í samningnum, það getur vel verið að umræðan staðfesti að hann sé góður.

Ég hef hins vegar verið alveg skýr um það líka að ég vil halda í ákveðna sérstöðu þegar kemur að atvinnumálum á Íslandi, þegar kemur að íslenskum fyrirtækjum í rekstri, og þá á ég aðallega við landbúnaðinn. Ég tel að við eigum — ekki síst á þeim tímum sem við upplifum nú þar sem eru jafnvel vísbendingar um tengsl milli lyfjanotkunar í matvælum og hversu þungt þessi veira leggst á ákveðna hópa fólks — að vera óhrædd við að segja: Við þurfum að vernda landbúnaðinn okkar og við þurfum að leggjast gegn því eða takmarka eins og mögulegt er að við smitum hann með einhverjum óþverra sem við gætum komið í veg fyrir.

Landbúnaður er atvinnuvegur en hann er líka fjölskyldufyrirtæki. Í langflestum tilfellum eru þetta lítil fjölskyldufyrirtæki þar sem fjölskyldan hefur atvinnu af landbúnaðinum. Landbúnaðurinn ber líka á Íslandi mjög ríkar skyldur samkvæmt lögum um að sjá okkur hinum sem erum ekki í landbúnaði fyrir matvælum eða hráefni og slíku, á verði sem er jafnvel ákveðið af ríkinu, ekki af greininni sjálfri. Þannig að (Forseti hringir.) einstaklingar, heimilin og atvinnulífið eru þarna að tala saman. Það eru skyldur á báða bóga en það má örugglega (Forseti hringir.) skýra það með einhverjum hætti.