150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:18]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Árni Magnússon sem var handritasafnari og var uppi á 17. öld sagði, og eru það fræg orð: „Svo gengur það til í heiminum að sumir hjálpa erroribus á gang en aðrir leitast við að ryðja út þeim sömu erroribus og hafa svo hvorirtveggju nokkuð að iðja.“ Við höfum haft fyrir satt að hann hafi verið að tala um handritasafnara og jafnvel verið að tala um prófarkalesara og þetta hefur verið nokkurs konar mottó okkar prófarkalesara en í raun var hann náttúrlega að tala um endurskoðendur og gildi endurskoðenda.

Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy kærlega fyrir efnisríka og góða ræðu. Mig langar að spyrja hvort hann telji að við þurfum að herða kröfur um reikningsskilahald eða hvort við þurfum að draga úr þeim eða hvort við þurfum kannski að miða kröfurnar við stærð, þ.e. draga (Forseti hringir.) úr kröfum þegar um er að ræða litla aðila á markaði en herða þær þegar um er að ræða stærri og öflugri fyrirtæki.