150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[15:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér til mikillar ánægju sá ég, þegar ég settist í sæti mitt eftir síðustu ræðu, að forsetinn er búinn að boða þingflokksformenn til fundar kl. 4. Það er ánægjulegt og ég vona að það verði árangursríkur fundur. En af því að fólk er að tala um hvers vegna er verið að setja húsnæðismálin síðast á dagskrá og menn halda að þarna sé einhver taktík undir, þá hugsaði ég satt að segja þegar ég sá dagskrána frá forseta: Já, þetta mál hefur greinilega ekki forgang hjá ríkisstjórninni. Það er sett síðast á dagskrá. Ef það hefði forgang þá væri það auðvitað fremst. Ég túlkaði það bara þannig að ríkisstjórnin legði ekki áherslu á húsnæðismálið sem ASÍ er þó að kalla eftir og er eitt af lífskjarasamningamálunum. En svona er þetta. Það nýtur ekki forgangs hjá ríkisstjórninni.