150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[16:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fjalla aðeins um ársreikninga ríkisins, tengt þessu máli. Ég ætla samt að byrja á nefndarálitinu og breytingartillögunum til að vera aðeins nær frumvarpinu sjálfu. Það eru nokkrar breytingartillögur í nefndarálitinu, það kemur ein ný grein og í 3. tölulið er lagt er til að 2. málsliður 3. gr. frumvarpsins falli brott. Ég er að reyna að átta mig á hvernig þetta er, það er ekki samkvæmt frumvarpinu eins og það er eftir 2. umr., væntanlega er verið að vísa í 2. gr. þess. Ef svo er þá er það allt í lagi, en gerir að verkum að 3. gr. er dálítið biluð, held ég. Frumvarpið var lagt fram 4. desember í fyrra og þar segir að 1. gr. þess öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 2020, sem er augljóslega liðinn. Ég velti því fyrir mér hvort hægt sé að setja 1. gr., fyrir þetta ár, upp á skil á ársreikningum, aftur í tímann. Það þarf að athuga hvort það ætti ekki að vera þannig að þetta öðlast ekki gildi fyrr en 1. janúar 2021. Ef einhver úr nefndinni fylgist með þessu væri eðlilegt að fá skýringu á því hvernig þetta passar saman.

Það er áhugaverð tafla í greinargerð frumvarpsins þar sem fjallað er um skilaskyld félög og hversu vel hefur gengið að fá fyrirtæki til að skila ársreikningum, vel innan stórra gæsalappa því að árið 2017 eru skil fyrir árslok 88%. Það þýðir að það eru 5.000 fyrirtæki sem skila ekki ársreikningi og það er dálítið merkilegur fjöldi.

Það sem ég ætlaði hins vegar að fjalla um er hliðstæðan, hvernig við gerum þetta hjá hinu opinbera og hvernig það gengur að vera kannski ákveðin fyrirmynd með skil á ársreikningi eða t.d. ríkisreikningi. Það er einmitt ekki búið að skila ríkisreikningi fyrir árið 2019 þó að það ætti að vera von á honum hvað úr hverju. Ríkisreikningi fyrir 2018 var skilað 28. júní 2019, tæpum sjö mánuðum eftir að árinu lauk. Ársreikningi fyrir 2017 var skilað 11. október 2018, einstaklega seint. Ársreikningi fyrir 2016 var skilað 14. júní 2017, reikningi fyrir 2015 var skilað 16. júní 2016, reikningi fyrir árið 2014 var skilað 29. júní árið eftir. Að meðaltali er það um miðjan eða seinni part júní sem ríkið skilar sínum ársreikningi.

Það er mjög erfitt fyrir þingið að fylgjast með framkvæmd fjárlaga þegar þessar upplýsingar liggja svona seint fyrir. Það er á nákvæmlega sömu forsendum sem skil á ársreikningum fyrirtækja ættu að vera skilvirk. Það er verið að reyna að gera þau skilvirkari með þessu frumvarpi. Við hjá ríkinu ættum að vera ákveðin fyrirmynd og gera betur en svo að það taki sjö mánuði fyrir Fjársýsluna að skila ríkisreikningi. Það veldur ákveðinni keðjuverkun fyrir fjárlög næsta árs og fyrir alla áætlunargerð ríkisins um það hvaða tölur eru í rauninni réttar og er rétt að byggja á. Þetta seinkar ferlinu, þetta vindur upp á sig fram eftir árinu, gerir stefnumörkunina erfiða af því að það vantar réttar upplýsingar til þess að byggja á. Þetta gerir áætlunargerð mun svifaseinni sem og eftirlit þingsins af því að menn hafa ekki réttar upplýsingar til að byggja á.

Það sem mér finnst áhugavert þegar á heildina er litið, og kom fram í máli hv. þm. Smára McCarthys, er að ef við værum að gera þetta rétt þá fengjum við upplýsingar um breytingar næstum því í rauntíma, hvernig gengur með reikningsskil og uppfærslur ríkisins. Þetta er eitthvað sem við ættum að geta gert og ættum að drífa í sem fyrst. Þegar kemur að því hvernig við förum með skattfé eru upplýsingarnar og gagnsæið sem við getum veitt, ekki bara til kjörinna fulltrúa heldur til þjóðarinnar um það hvernig er verið að fara með fé hennar, þeim mun verðmætari. Það að geta brugðist við í tæka tíð getur sparað gríðarlega fjármuni, að geta brugðist við þegar við sjáum að verið er að fara langt fram úr fjárheimildum eða að áætlanir standast ekki miðað við gefna stefnu, kannski af því að hún var ekki byggð á nægilega góðum gögnum. Það eru tvímælalaust ákveðnar brotalamir að finna í skilum hins opinbera á upplýsingum um hvað var í rauninni gert við skattfé almennings.

Í tölunum um það hvernig fyrirtækjum gengur að skila ársreikningum sínum sést að 2007 skila tæp 60%, þar vantar um 12.000 fyrirtæki, en tíu árum síðar, árið 2017, það eru nýjustu upplýsingarnar, vantar um 5.000 fyrirtæki. Það eru tvímælalaust framfarir. En þvert á móti eru engar framfarir varðandi skil á ríkisreikningi, það tekur alltaf um sjö mánuði að klára og loka ríkisreikningi. Við gerum þessar kröfur á fólkið í landinu, það er mikið talað um lítil fyrirtæki sem eru kannski að vinna með mun takmarkaðri auðlindir og möguleika á að skila þessum upplýsingum. Fólk hefur mikið að gera og hefur kannski síst tíma til að sinna skriffinnskunni sem við búum til. Við setjum þessar skriffinnskukvaðir á landsmenn og lítil fyrirtæki og þess vegna einstaklinga, t.d. skil á skattskýrslu — það er auðveldara núna en á samt að skila í mars, apríl — og þessir aðilar eiga að skila miklu fyrr en ríkið sjálft getur skilað. Ríkið ætti þó ekki að þurfa þennan aukatíma því að að sjálfsögðu ættum við að loka upplýsingunum sem fyrst, þegar árinu er lokið eða, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Smára McCarthys, samstundis. Ársreikningur sé eins mikill samtímaársreikningur og hægt er.

Nú liggur fyrir annað frumvarp frá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem fjallar um ársreikninga, m.a. aðgengi að ársreikningum, gjaldfrjálsan aðgang minnir mig, ég vona að ég muni rétt. Það fjallar um ytra aðhald með t.d. þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum. Við erum dálítið skrýtin með það að við erum með fyrirtækjaskrá sem skiptist í grunnupplýsingar um fyrirtækin og samþykktir félagsins, ársreikninga og hlutafélagaskrá. Þegar það er opinn og gjaldfrjáls aðgangur að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá eru sérlög um þær upplýsingar en ekki allar aðrar upplýsingar sem er að finna í fyrirtækjaskránni, t.d. ársreikninga. Um þá eru sérlög sem stoppa gjaldfrjálsa aðgengið að upplýsingum fyrirtækjaskrár. Þetta eru upplýsingar sem eiga að vera aðgengilegar fyrir hvern sem er og hvenær sem er, þessar opinberu upplýsingar sem við stöndum skil á gagnvart samfélaginu. Þar eru ákveðin vandamál líka, eins og í ársreikningunum og hlutafélagaskráin er ekki uppfærð nægilega reglulega.

Hvað þetta frumvarp varðar erum við enn þá föst í því að ársreikningurinn er einmitt ársreikningur en ekki mínútureikningur, ef maður gæti hugsað það þannig. Þó að það væri kannski ekkert rosalega gagnlegt þegar á heildina er litið ætti það að vera mögulegt, þ.e. að reikningar gangi svo hratt í gegnum allt kerfið.

Ég hef þó nokkuð mikinn áhuga á því, í tengslum við þær skyldur sem við setjum á samfélagið um að standa skil á upplýsingum sem varða ársreikninga, hlutafélagaskrá og þær tengingar sem fyrirtæki getur búið til, að hið opinbera sýni frumkvæði og sé ákveðin fyrirmynd í þessum efnum. Ég geri þá kröfu að ríkisreikningur sé betur gerður og gerður hraðar og að aðgengi að honum sé nákvæmlega hið sama og að öllu þar á bak við, það sé ef eitthvað er betra en gengur og gerist miðað við þær kvaðir sem við setjum á borgara landsins. Hið opinbera á tvímælalaust að ganga á undan með góðu fordæmi. Við setjum lög og reglur til að passa að vald hins opinbera sé sem sanngjarnast og þegar opinberir aðilar leggja á kvaðir séu þær ekki ósanngjarnar gagnvart aðilum. Hið opinbera þarf að gefa gott fordæmi. Ég ætla að ljúka ræðu minni á því og minna aftur á, ef einhver úr efnahags- og viðskiptanefnd nær þessu, að í frumvarpinu segir að 1. gr. þess skuli ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2020. Þrátt fyrir að sú dagsetning sé liðin get ég ekki séð að gert sé ráð fyrir þeirri breytingartillögu í nefndarálitinu að þetta gæti átt að vera 1. janúar 2021, fyrst það láðist að afgreiða frumvarpið fyrir síðustu áramót.