150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

opinber fjármál.

842. mál
[18:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kvittaði ekki undir þetta nefndarálit enda er ég ósammála niðurstöðunni þegar allt kemur til alls. Mig langar til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar út í álit fjármálaráðs og þann útúrsnúning sem mér finnst ráðuneytið og í rauninni meiri hlutinn vera með á því áliti. Þar er vissulega sagt að það sé málefnaleg ástæða til að fresta, en einnig er sagt að það sé nauðsynlegt að koma hringrásinni á svo fljótt sem auðið er. Þá skil ég ekki hvers vegna einungis er tekið út úr álitinu að það sé málefnaleg ástæða til að fresta og frestunin er eins mikil og hún er í raun. Er þá í rauninni hægt segja: Ég get ekki komið með fjármálastefnu núna, og ekki heldur núna, og fresta og fresta eftir því hvað á gengur? Hvaða skilyrði gefa þessar forsendur til að hægt sé að setja fjármálastefnu? Hvaða óvissa kemur í veg fyrir að hægt sé að setja fjármálastefnu? Ef við vitum það ekki vitum við heldur ekki hvenær sú óvissa klárast, sem myndi segja okkur að þá sé hægt að setja fjármálastefnu, af því að það er ekkert skilgreint.

Annað mjög mikilvægt kemur fram í áliti fjármálaráðs er varðar gagnsæið. Ef setningu fjármálastefnu er frestað og í því ástandi þar sem ekki er gild fjármálastefna leggur fjármálaráð gríðarlega áherslu á grunngildisatriðið gagnsæi, sem hefur ekki verið neitt, við verðum að segja eins og er. Og hvað varðar sjónarhorn þingsins á eftirlit og aðhald með stjórnvöldum, hvernig getum við kvittað upp á að framkvæmdarvaldið fresti framlagningu fjármálastefnu svona lengi án þess að viðhalda gagnsæisgrunngildinu?