150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:00]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Í frumvarpinu virðist vera skylda að nota séreignarsparnað til að greiða af þessu láni. Í dag getum við valið hvort við nýtum séreignarsparnað til að greiða niður höfuðstól lána en þarna er þetta skylda, eins og ég skil þetta. Til þess að þetta virki nú allt meinar hv. þingmaður að það sé of mikið að binda þetta og gera að skyldu? Ég vil biðja hann um að svara því ef mögulegt er.

Síðan er seinni hlutinn. Hv. þingmaður sagði að þetta væri of langur lánstími. Nær væri að hafa hann til fimm ára og fólk myndi sækja um aftur á fimm ára fresti, ef ég heyrði rétt, þannig að fólk væri metið inn aftur og aftur. En á sama tíma heyrðist mér hv. þingmaður segja að þetta væri of stutt lán. Hér væri hreinlega bannað að hafa þetta eins og Íslandslán til 40 ára. Þarna finnst mér gæta mótsagnar.

En ég vil taka sérstaklega undir með hv. þingmanni í sambandi við reglugerðir. Það virðist hreinlega vera í tísku núna að veita ráðherrum þessarar ríkisstjórnar alveg ótrúlegt vald til að setja allt í reglugerðir.