150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:02]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú að halda því fram að ráðherrum þessarar ríkisstjórnar hafi ekki verið veittar meiri reglugerðarheimildir en ráðherrum annarra ríkisstjórna, en þetta er hins vegar þróun sem hefur átt sér stað, því miður. Það er við Alþingi Íslendinga að sakast en ekki ráðherrana, svo það sé sagt.

Annars vegar er langstærsti hluti af fjármögnun íbúðarinnar í formi íbúðaláns, ekki hlutdeildarlánsins heldur íbúðalánsins. Það á sem sagt að banna mönnum sem njóta hlutdeildarlánsins að taka lengri lán en til 25 ára. Ég er bara að segja að það mun auka greiðslubyrði. Ég tók dæmi af manni með 400.000 kr. í laun, greiðslubyrði af útborguðum launum mun hækka úr 29% í 39%. Þar með er augljóst að það vinnur gegn markmiðum frumvarpsins.

Það sem ég er hins vegar að segja varðandi hlutdeildarlánin er að þau ættu að koma til endurskoðunar á fimm ára fresti. Nú er t.d. endurskoðunarákvæði ef viðkomandi hefur í þrjú ár í röð verið með tekjur umfram einhverja upphæð o.s.frv. Viðkomandi einstaklingur, ekki stofnunin, þarf að skoða hvort það þjóni hagsmunum hans að halda áfram með hlutdeildarlánin og þar með taka ákvörðun um að deila þeirri verðmætaaukningu sem verður í íbúðinni áfram með ríkinu eða kannski taka hana til sín fyrr en eftir 25 ár. Hann stendur frammi fyrir þeirri ákvörðun á fimm ára fresti.