150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

afsögn formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

[15:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég get sagt sem fulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að það er eftirsjá að hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur úr formannshlutverkinu, en þetta er skiljanleg ákvörðun hjá þingmanninum. Ég kom inn í nefndina á miðjum vetri og þá þegar var áþreifanlegt andrúmsloft vantrausts í nefndinni. Eins og þingmaðurinn lýsti hér áðan hafði meiri hlutinn nýtt hvert skref til að grafa undan formennsku hennar í nefndinni. Um það er svo sem lítið að segja annað en að ég vona að forseti taki þetta með í reikninginn þegar litið er á vinnustaðinn Alþingi og hvernig eigi að starfa hér, hvernig grafið er undan forystu minni hlutans í nefndum þingsins og ekki alltaf á málefnalegum grunni, þar sem minni hlutanum er treyst fyrir því hlutverki, oft aðeins að nafninu til, virðist vera.