150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[17:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hefur samt áhrif á ákveðnar skuldbindingar sem ríkið gerir, frestun á greiðslum og slíku hefur áhrif á fjármagnskostnað og þess háttar. Þetta eru kannski ekki háar upphæðir, það getur vel verið, en a.m.k. þyrfti að hafa einhver viðmið þannig að ef þetta snýst í slæma niðurstöðu sé það metið varðandi gjaldþrot, því að markmið frumvarpsins eru að koma í veg fyrir gjaldþrot sem hafa neikvæð áhrif á afkomu ríkisins. Við erum að reyna að koma í veg fyrir þau.

Ef það tekst ekki hefur það neikvæð áhrif fyrir ríkissjóð sem ætti að standa skil á mati á áhrifum. Þetta er kostnaður fyrir ríkissjóð þannig að það vantar. Hvernig væru mótvægisaðgerðir þar og hvaða áhrif hefur greiðsluseinkunnin á fjárhag hins opinbera? Það eru meira en krónur þarna og ég tel að þingið ætti að hafa eitthvert mat á því hvaða stærðargráðu við erum að tala um þegar við metum hvort lögin nái markmiði sínu eða ekki, því að þegar við sjáum að lögin ná ekki markmiði sínu, ef það gerist, þarf þingið augljóslega að grípa inn í með breytingu á þessum lögum eða með annars konar aðgerðum. Að framkvæmdarvaldið segi í mati á áhrifum hvert viðmiðið er gefur okkur tæki til að fylgjast með því í hvaða átt málið er að þróast. Þess vegna vantar matið.