150. löggjafarþing — 118. fundur,  16. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, fyrst aðeins að þessari gjaldtöku. Ég er alveg meðvitaður um vandamálið er varðar persónuvernd en kann ekki skil á því. Ég veit að það er mikilvægt að passa upp á það. Það sem ég nefndi, auðvitað bara út í loftið, var að kílómetragjaldið væri þá a.m.k. sams konar gjald og við höfum í dag, þ.e. að þú borgar þá alla vega fyrir notkun. Að vísu eyða bílar mismiklu þannig að þetta er kannski ekki alveg það sama. Ég treysti þinginu til að finna leiðir til að leggja á gjöld og afla tekna fyrir vegaframkvæmdum sem leggjast a.m.k. ekki þyngra á veikustu hópana en aðra. En ég tek alvarlega þessar ábendingar um persónuverndina og tók eftir því að minnst var á það í minnihlutaáliti hv. þingkonu Hönnu Katrínar Friðriksson sem ég las áðan.

Um örflæði er það að segja að ég held að það sé einmitt samgöngumáti sem muni bara færast í vöxt. Ef maður skoðar bækur færustu skipulagssérfræðinga heimsins, sem allir eru að vinna að því sama, að vinda ofan af bandarísku bílaborginni, þá er bara eitt sem þeir segja að skipti langmestu máli og það er „walkability“, þ.e. sem sagt gönguhæfi, og undir það falla líka þessi smáfarartæki sem geta farið styttri vegalengdir. En til þess þurfum við að byggja minna, byggja nær hvert öðru og þá vekur það athygli mína að hlutdeildarlánin sem hæstv. félagsmálaráðherra lagði fram gera bara ráð fyrir nýjum íbúðum sem eru þá væntanlega í úthverfum og dreifa úr borginni. Ég held að það sé röng stefna. Ég held einmitt að við eigum að gefa fólki tækifæri til að búa nær hvert öðru.