150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

hugtakið mannhelgi.

627. mál
[11:33]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Það var áhugavert að grafast fyrir um það hvar mannhelgi er á málefnasviði ráðuneytisins. Ég tek undir að þetta er óáþreifanlegt og margslungið hugtak og ég held enn þá að það væri erfitt að setja það í fastmótað form til að ná yfir allt sem við teljum falla þar undir. Það kom auðvitað ýmislegt fram í umræðunni en ég varð þó fyrir vonbrigðum með þá umræðu sem hér skapaðist varðandi þungunarrof og þá vanvirðingu sem mér fannst felast í henni gagnvart ákvörðun konunnar, að taka þá erfiðu ákvörðun, þar sem sú ákvörðun er um hennar líf og líkama og það er hennar ákvörðun. Það er ekki síst vegna sannfæringar minnar um frelsi einstaklingsins, sem ber ábyrgð á sjálfum sér, og sjálfsákvörðunarrétt að ég tel að það frumvarp hafi verið mikið heillaspor. Þó að þessi umræða sé ekki um það fannst mér nauðsynlegt að koma því að. En ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu.