150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég sagði að sjálfsögðu ekki að þær væru ekki jafn mikilvægar og hinar framkvæmdirnar. Ég sagði bara að þær væru ekki í þessum ramma faglegra forsendna um greiðfærni, öryggi, hagkvæmni o.s.frv., sem setur ráðherra skorður varðandi forgangsröðun í samgöngumálum. En það að taka þessi málefni út fyrir sviga — til að svara síðustu spurningunni: Að sjálfsögðu. Verið er að réttlæta þau verkefni með því að aðrar leiðir séu færar. En hvað gerist þegar einkaframkvæmdin er komin upp og fólk er farið að greiða? Hve aftarlega lendir hin leiðin í forgangsröðinni þegar kemur að viðhaldi? Innan samgönguáætlunar myndu þeir vegir bara hrynja niður listann og drabbast niður, þannig að eina raunhæfa leiðin, bara ef tryggja á öryggi, greiðfærni og hagkvæmni, er að sjálfsögðu að fara hina leiðina.

Það er mjög gott, ég vissi ekki þetta með 33% muninn. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá er ég ekki í nefndinni og þar af leiðandi ekki búinn að fara vel yfir málið en það (Forseti hringir.) gæti orðið þörf á því ef þessi umræða dregst á langinn.