150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Ég ætla að leyfa mér að nefna að hv. þingmaður er fulltrúi fyrir stjórnmálaflokk sem er ekki í minni hluta, eins og hér á Alþingi, í stærsta sveitarfélagi landsins, sem er Reykjavík. Rétt eins og áhugavert væri að tala við hv. þingmann Pírata þar sem þeir fara með skipulagsmálin í borginni, þá er hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir fulltrúi fyrir flokk sem er leiðandi í borgarstjórn Reykjavíkur og er búinn að vera það meira og minna um mjög langt skeið. Hann er, má kallast, forystuflokkur. Við ræðum þýðingarmikið mál sem er Sundabrautin, sem er gífurlega þýðingarmikil í fyrsta lagi til að tengja höfuðborgina við Vesturlandið. Í öðru lagi var það ákvörðunaratriði, leyfi ég mér að segja, fyrir íbúa Kjalarness þegar þeir samþykktu að verða hluti af Reykjavík, að Sundabraut yrði lögð.

Það vekur því og hefur vakið mjög mikla athygli að ekki er annað að sjá, svo ég leyfi mér að segja það á venjulegri íslensku, en að meiri hlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur dragi lappirnar í þessu þýðingarmikla máli. Þetta mál virðist hvorki komast lönd né strönd meðan mál eins og borgarlína er sett í fremsta forgang, að því er virðist. Samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu birtast okkur í samgönguáætlun sem við ræðum hér, en sömuleiðis í öðru máli sem er næst á dagskrá, þ.e. stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og þátttöku ríkis og sveitarfélaga.

Ég vil í þessari umferð spyrja hv. þingmann: Er hv. þingmaður sammála þeim áherslum sem Samfylkingin, sem forystuflokkur í Reykjavík, (Forseti hringir.) hefur lagt varðandi Sundabraut, um að hún sé höfð einhvers staðar til hliðar og úti í einhverjum skúmaskotum (Forseti hringir.) meðan önnur verkefni eru sett miklu hærra og að þetta mál (Forseti hringir.) sé búið að drabbast allt of lengi? Er hv. þingmaður sáttur við það?

(Forseti (WÞÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)