150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun, bæði til fimm ára og síðan til 2034, og umræðan hefur verið mjög áhugaverð. Mig langar aðeins að vera áfram úti á landsbyggðinni af því að ég er þaðan og mér hefur fundist á vanta þar. Þó að ég taki algjörlega undir það að fara þurfi í samgöngubætur hér á höfuðborgarsvæðinu ætla ég samt að bíða með það. Þessi mikla fjárfestingarþörf upp á 400 milljarða til að koma vegakerfinu í sæmilegt horf hlýtur að vera áhyggjuefni. Við ættum að taka það til okkar, stjórnmálamenn, að við séum ekki komnir lengra en þetta í samgöngumálum, í grundvallarinnviðaþjónustu við landsmenn. Eins og ég sagði í ræðu minni síðast er ég þó mjög ánægður með að sjá þá samstöðu sem ríkir í samgöngunefnd um að gera það sem í þeirra valdi stendur til að laga þau mál sem hægt er að laga miðað við það sem úr er að moða, því að ekki leit nú samgönguáætlunin nógu skemmtilega út þegar hún var lögð fram í haust.

Ég fór í smáhugleiðingar aftur í tímann, hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig, og þá komu upp í hugann framkvæmdir sem vöktu mikla athygli í gegnum árin, stórframkvæmdir. Sumt af því hefur verið framkvæmt og annað hefur verið í bið í mörg ár. Mig langar að byrja á hinni frægu Teigsskógarleið sem enn er ekki byrjað á en hillir þó undir og hefur reyndar hillt undir áður. Hún var tilbúin til útboðs 2006. Síðan má segja: „The rest is history“, eins og segir á góðri íslensku eða hitt þó heldur, afsakið, herra forseti. Þetta hefur strandað á kærumálum og alls konar öðrum vandræðum. Ég var hér í andsvari við hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur áðan og við töluðum um göng. Um leiðina um Teigsskóg má segja að þar er gangamöguleiki sem sennilega hefði verið betri leið, horfandi á umhverfisþættina sem virðist vera það sem hamlar þar. Það er mun dýrari leið en hún er kannski ódýrari til lengri tíma litið.

Þegar Borgarfjarðarbrúin var byggð á sínum tíma, sem var vígð 1981, gekk mikið á í þjóðfélaginu. Talað var um að eingöngu væri verið að brúa fyrir Borgnesinga svo að þeir ættu styttri leið til Reykjavíkur. Að sjálfsögðu er styttra til Reykjavíkur fyrir þá en það er þvílík búbót fyrir alla landsmenn að hafa þessa brú sem bæði liðkar og styttir leiðina vestur og norður á land. Hvalfjarðargöngin sem voru tekin í notkun 1998 — það gekk mikið á í sambandi við þau. Svo er það Sundabrautin sem enn er ekki komin til framkvæmda. En ef maður gúglar Sundabrautina og þann tíma sem hún hefur verið til umræðu þá var hún fyrst á skipulagsskrám Reykjavíkurborgar árið 1984. Árið 1994 var Sundabrautin listuð með þjóðvegum á vegáætlun og að hún væri nauðsynlegur hlekkur í stofnbrautakerfi höfuðborgarsvæðisins út á land. Í aðalskipulagi Reykjavíkursvæðisins árin 2001–2004 var hún komin inn í aðalskipulag og gert ráð fyrir að vegurinn yrði skilgreindur sem stofnvegur í þingsályktun um vegáætlun 2003–2006. Sundabrautin var tilbúin til útboðs en enn hefur ekkert gerst og ekki hægt að segja annað en að borgaryfirvöld hafi unnið gegn því að þessi vegur yrði lagður. Það er búið að taka land þar sem vegurinn átti að liggja til annarra verkefna og það er alveg óskiljanlegt að þetta sé ekki komið lengra vegna þess að það liggur í augum uppi hvað það myndi bæta samgöngur, hvað varðar vegalengdir og öryggi á allan hátt, ef þessi vegur yrði lagður.

Aðeins um jarðgangamálin líka af því að ég kom að þeim áðan í andsvari. Þar kom fram að það væri algerlega okkar stjórnmálamannanna að stjórna því. Það er alltaf verið að kenna Vegagerðinni um þegar vantar pening í viðhald, þegar vantar pening í vetrarþjónustu og annað slíkt. Þegar verið er að skipuleggja vegi eins og fjallvegi og vegi á svæðum sem er erfitt að fara um á veturna er oftar en ekki farið í vegaframkvæmdir yfir fjallið en ekki í gegnum það vegna þess að það kostar oft og tíðum helmingi meira en er til lengri tíma litið alveg örugglega ódýrara. Viðhald og vetrarþjónusta er mjög dýr og oft ófyrirsjáanleg. Veturinn var mjög snjóþungur en einhverra hluta vegna var kippt til baka áætluðu fjármagni af því að það kom út úr útreikningum að það hefði verið mínus einhvers staðar fyrir tveimur til þremur árum. Þá átti að draga það frá viðhaldi vega, snjómokstri réttara sagt, í vetur og þeir þjónustuaðilar sem sáu um vetrarþjónustuna urðu að draga saman seglin út af því og þjónusta veginn skemur. Þó var veturinn eins og hann var og mjög erfitt að komast á milli staða. Ég skil ekki af hverju okkur gengur ekki betur en þetta að koma þessum málum á þann rekspöl að allir geti verið sáttir. Síðan er það alltaf þannig að þegar verið er að laga veg á einum stað fer fólk á öðrum stöðum að kvarta yfir því að vegurinn sé ekki lagaður hjá því. Þess vegna þurfum við stjórnmálamenn að gera miklu ígrundaðri samgönguáætlun sem stenst tímans tönn þannig að fólk sjái það fram í tímann að þeirra svæði er einhvers staðar á listanum.

Ég held að það megi segja að samgönguáætlanir hafi nánast aldrei staðist nema til mjög skamms tíma og þegar svo er er mjög vont að trúverðugleikinn sé ekki fyrir hendi. Það er mjög slæmt að það sé ekki komið á þann rekspöl að trúverðugleiki sé til staðar vegna þess að það er svo mikið í húfi. Nú er tími minn búinn og mér er farið að hitna í hamsi.