150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á hafnir og sjóvarnir og ég tek heils hugar undir það mat meiri hluta nefndarinnar að þörf sé á bættum sjóvörnum um allt land. Ágangur sjávar er víðast hvar mikill á landinu og nauðsynlegt er að verja strandsvæði og byggðir, eins og segir í nefndarálitinu, en ég vil einnig bæta við mikilvægi þess að verja fornminjar og sakna þess að meiri hlutinn skuli ekki minnast á það. Ég kom aðeins inn á þetta mál í upphafi og vil fara aðeins nánar yfir það.

Mikill fjöldi minja um allt land er í stórhættu vegna sjávarrofs og ekki síst minjar um sjávarútveg og sjósókn Íslendinga frá landnámi og allt fram á 20. öld. Um er að ræða gríðarlegt magn ómetanlegra menningarverðmæta sem eru nær órannsökuð og munu, ef ekkert verður að gert, hverfa í sjóinn. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að bæta fjármunum í sjóvarnir um allt land.

Minjastofnun hélt fyrir ekki svo löngu síðan ráðstefnu um minjar sem eru í hættu vegna ágangs sjávar og margt athyglisvert kom þar fram. Í Skagafirði eru á bilinu 60–70% minja annaðhvort horfnar, í fyrirsjáanlegri hættu eða hafa skemmst. Á þessari ráðstefnu kom fram að mjög svipað ástand er á Snæfellsnesi og eins í Skagafirði, eins og ég nefndi áðan. Þetta eru bæði minjar um sjósókn fyrri alda og eins og í tilfelli Reykjaness þar sem hefur verið mjög mikið landbrot í langan tíma er strandlengjan komin það langt upp á land að þar geta minjar af ýmsu toga; landbúnaðarminjar, bæir, hólar og hvað eina sem hægt er að nefna, verið komnar í hættu. Elstu minjar þar um sjósókn og útræði eru hreinlega horfnar, því miður, og grátlegt að horfa upp á það.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að almenningur sé vel vakandi yfir þessu. Margir Íslendingar stunda útivist af ýmsu tagi, ganga með strandlengju landsins o.s.frv. og eiga hreinlega að tilkynna Minjastofnun ef þeir verða varir við að minjar séu að spillast eða séu í hættu. Það kom fram á þessari ráðstefnu Minjastofnunar um mikilvægi sjóvarna til þess að koma í veg fyrir að minjar fari í sjó fram að það eru um 250.000 minjar víðs vegar um Ísland og margt af þessu hefur ekki verið skráð. Í fyrsta lagi þarf náttúrlega að skrá minjar, leggja áherslu á það, og verja þær síðan fyrir ágangi sjávar. En síðan hefur sjávarrof valdið landeyðingu víða um land og orðið til þess að minjar um búsetu og lífsbaráttu genginna kynslóða eru horfnar. Í sumum tilvikum á þetta einnig við um mannvirki sem hafa verið reist fyrir ekki mörgum áratugum síðan.

Ekki má við svo búið standa enda geta verið mikil verðmæti í húfi. Það verður að segjast eins og er að þessi málaflokkur hefur verið vanræktur, því miður. Það eru dæmi þess að íbúar hafi verið að reyna að verja minjar sem eru komnar í sjó fram með sandpokum og öðru slíku og þjóð sem státar sig af ríkri sögu og menningu getur ekki verið þekkt fyrir að heimamenn þurfi að bera sandpoka niður í fjöru til að reyna að bjarga menningarverðmætum. Við verðum að taka okkur á í þessum efnum, herra forseti, og tryggja að bætt sé í sjóvarnir um allt land. Það þarf ekki nema eitt fárviðri til þess að valda gríðarlegu tjóni, við þekkjum það frá því í desember 2019, þá varð umtalsvert tjón á sjóvarnargörðum á Sauðárkróki sem dæmi og víða á Reykjanesskaga og í Reykjanesbæ. Það þarf ekki nema eitt stórviðri til þess að veruleg verðmæti fari forgörðum.

Ég mun koma nánar inn á þetta á eftir, herra forseti, og bið vinsamlega um að verða settur aftur á mælendaskrá.