150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þar sem ég er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður hef ég í ræðum mínum einkum lagt áherslu á þau vandamál sem við er að etja í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef áður, og mig langar að taka það upp aftur, minnst á fjarveru Sundabrautar í samgönguáætlunum sem hér eru settar upp vegna þess að það virðist vera ætlan manna að setja Sundabraut upp sem sérstakt verkefni og greiða það niður með veggjöldum, sem er í sjálfu sér kannski allt í lagi. En það sem er verra er að það lítur þannig út að borgarstjórnarmeirihlutinn, sem stjórnar hér um stundir, sé með mjög einbeittum vilja að reyna að koma í veg fyrir að Sundabraut geti orðið að veruleika. Það sést á báðum endum verkefnisins, ef ég get tekið þannig til orða. Þar sem Sundabraut ætti að taka land, í Laugarnesi eða inn um Voga, er eiginlega búið að girða fyrir landtöku hennar með því að selja landið í hendur fjársterkra aðila sem eru að reisa þar byggð. Í Grafarvogi, rétt við áburðarverksmiðjuna, er nú er verið að reyna að byggja — og ekki bara að reyna, það er verið að byggja inn í vegarstæði Sundabrautar. Það er náttúrlega alveg fáheyrt að svoleiðis sé gert. Það virðist ekki vera hægt að stöðva þessi spellvirki með nokkrum hætti.

Það er ekki bara að Sundabrautin sé nauðsynleg okkur Reykvíkingum og ekki nóg með að Sundabrautin sé loforð til Kjalnesinga þegar þeir féllust á að verða samborgarar Reykvíkinga, heldur kemur seinkun á Sundabraut, og/eða sú gerð að reyna að koma í veg fyrir að Sundabraut verði yfirleitt gerð, niður á einu af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Mosfellsbæ. Það vill þannig til að Mosfellsbær sendi inn umsögn um þessar samgönguáætlanir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í fyrirliggjandi tillögu að samgönguáætlun eru nánast engar framkvæmdir tilgreindar sem snerta Mosfellinga með einum eða öðrum hætti.“

Síðan er það rakið og nefnd vegamót sem þarna eru þung og tvöföldun sem þarf að verða milli tveggja tenginga inni í bænum. Reyndar segir að fjárveiting til fyrri hluta þeirrar framkvæmdar sé komin inn á þessa áætlun en hún dugar bara fyrir hluta af framkvæmdinni. Það á sem sagt bara að tvöfalda hluta og gera þar með erfiðara að leysa það að hægt sé að aka þarna í gegn, fyrir utan það að Mosfellingar hafa lengi haft áhyggjur af umferðinni sem fer í gegnum bæinn. Hún getur ekki flætt neins staðar annars staðar vegna þess að það er engin Sundabraut og það verður engin Sundabraut á næstunni. Ég veit að sitjandi hæstv. forseti hefur náttúrlega manna best skilning á þessu máli, þar sem hann kemur frá Akranesi og þarf að keyra í gegnum Mosfellsbæ í báðar áttir, á leið til og frá vinnu. Ef Sundabraut væri komin, ég tala nú ekki um ef hún væri lögð í göng að hluta, myndi það í fyrsta lagi bæta að- og fráflæðið hér í Reykjavík. Í öðru lagi, herra forseti, eins og ég hef minnst á áður, er Sundabrautin svo mikið öryggisatriði fyrir Reykvíkinga og þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu ef rýma þarf svæðið mjög fljótt.

Nú sé ég að tími minn er búinn allt of fljótt og bið hæstv. forseta um að setja mig á mælendaskrá að nýju.