150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:22]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég talaði í ræðu fyrr í dag um hafnamál en entist ekki tíminn og í framhaldi af því langar mig að grípa þar niður þar sem fram hafði komið að með breyttum lögum 2003 hafi hlutverki Hafnabótasjóðs verið breytt verulega. Þetta er úr nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar:

„Nefndin telur þörf á nýrri og ítarlegri yfirsýn yfir viðhaldsþörf hafna og væntingar sveitarfélaganna um nýframkvæmdir. Áætlun Hafnabótasjóðs birtist eingöngu í framkvæmdaáætlun samgönguáætlunar til fimm ára en engin heildstæð stefna liggur fyrir í hafnamálum. Vinna nefndarinnar við samgönguáætlun hefur leitt í ljós að nokkur stór og þjóðhagslega mikilvæg hafnaverkefni liggja fyrir sem hvorki eru í áætlunum Hafnabótasjóðs né getið um í endurskoðaðri samgönguáætlun. Nefna ber höfnina á Djúpavogi, sem þarf að stækka til að geta annað komum skemmtiferðaskipa og löndun eldislax til slátrunar, og nýjan löndunarkant í Gleðivík. Stækka verður Bíldudalshöfn til að efla fyrirtæki í kalkþörungavinnslu og laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum.“

Það er því mikið ákall eftir því á þessum stöðum að farið verði í hafnarbætur og hafnir dýpkaðar vegna þess að skip eru mörg hver orðin djúprist og stór og þurfa pláss til að geta athafnað sig og lagst að bryggju. Síðan má nefna líka það öryggissjónarmið í hinum dreifðu byggðum landsins að hafnir geti tekið á móti stórum skipum eða stærri skipum en venjulega eru á þeim stöðum til að sinna því samgönguverkefni, öryggisverkefni í samgöngum, að ef allir vegir eru lokaðir og veður mjög slæmt geti hafnir tekið á móti skipum í neyðartilvikum. Það er alls ekki þannig alls staðar í kringum landið. Það má t.d. nefna að okkar stærsta og flottasta varðskip, Þór, er mjög stórt og djúprist.

Síðan segir hér áfram:

„Reynslan hefur sýnt að endurskoða þarf liðinn Viðhaldsdýpkun en borið hefur á því að grípa þurfi til fyrirvaralausra dýpkana vegna óvæntra breytinga sem hafa áhrif á dýpi í höfnum. Við slíkar aðstæður hafa fjárveitingar ekki dugað fyrir mótframlagi ríkisins og hafnarsjóðir þurft að fjármagna framkvæmdir að fullu tímabundið. Sömuleiðis hefur þurft að áfangaskipta dýpkunarframkvæmd, framkvæma neyðardýpkun en bíða með heildardýpkunina þar til fjármagn fæst. Óhagræði fylgir þessu þar sem kostnaðarsamt er að flytja dýpkunartæki á verkstað. Dæmi um þetta er neyðardýpkun í höfninni á Reykhólum, en Vegagerðin samþykkti framlag til neyðardýpkunar til þess að tryggja áframhaldandi atvinnustarfsemi á staðnum en ekki tekst að ljúka verkinu fyrir gildandi fjárheimildir. Það sem eftir stendur eru 60 millj. kr. sem sveitarfélagið þarf að standa straum af […]“

Sveitarfélagið þarf þá að standa straum af því þangað til fjármagn kemur á móti. Þetta er eitthvað sem þarf að endurskoða mjög og er mjög brýnt. Eins og ég sagði í ræðunni áðan um þessi mál hafa hafnir og hafnarframkvæmdir setið á hakanum allt of lengi og því þarf að spýta í í þeim málum og vonandi verður það gert.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að verða settur að nýju á mælendaskrá.