150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fyrirvari í nefndaráliti.

[14:48]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir orð síðasta ræðumanns. Ég sit sömuleiðis í fjárlaganefnd. Ég er virkilega hugsi yfir því á hvaða vegferð meiri hlutinn er í ýmsum nefndum þingsins. Auðvitað er það ótrúlega sérkennilegt, ef maður staldrar aðeins við og hugsar hvað gerðist, að það sé einhver umræða í fjárlaganefnd um það hvort fulltrúar meiri hlutans séu sammála fyrirvara fulltrúa Viðreisnar í nefndinni. Umræðan var svo vitlaus að meira að segja var rætt hvort fyrirvarinn væri of pólitískur. [Hlátur í þingsal.] Á hvaða vegferð er þessi ríkisstjórn þegar hún talar með þessum hætti? Auðvitað eru fyrirvarar pólitískir, auðvitað er það sem við segjum pólitískt. Mér finnst þetta enn ein birtingarmynd þess virðingarleysis sem þinginu er sýnt aftur og aftur, hvort sem það er þetta eða subbuskapurinn í velferðarnefnd eða öðrum nefndum eða að fella allar tillögur sem (Forseti hringir.) minni hlutinn leggur hér fram þrátt fyrir allt talið um að efla ætti þingið, efla minni hlutann. Ég sé (Forseti hringir.) það ekki gerast og ég er orðinn langþreyttur á því, sérstaklega í ljósi þess að núna er einungis ár til næstu kosninga. Tíminn er einfaldlega á þrotum, herra forseti.