150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:10]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar og athugasemdir. Ég get kannski verið stuttorð og sagt: Ég er hjartanlega sammála því sem hann er hér að segja. Ég rakti í ræðu minni þessar tvær umsagnir, af því að mér fannst báðar bæta heilmiklu við málið. Mér finnst það áhugavert þegar maður skoðar þetta frumvarp, af því að það er ekki langt eða efnismikið miðað við fjölda greina eða lengd þeirra, að það er ofsalega mikið undir. Ég nefni það sem hv. þingmaður nefnir, um tengslin milli náttúruverndarstefnu og þeirra verkefna sem útlistuð eru í frumvarpinu hvað varðar hlutverk sjóðsins. Það er náttúrlega augljóst mál og talar mjög sterkt til manns hvað þessi sjóður hefur ofsalega mörg verkefni undir höndum. Hvað varðar umsagnir þá er ég því jafnframt hjartanlega sammála að það er mjög athyglisvert og umhugsunarvert hversu lítið þær skila sér í umræðum hér í þingsal. Í nefndunum er það auðvitað þannig að umsagnir eru veigamikill þáttur í því hver afstaða einstakra þingmanna til málanna verður og ég held að það yrði kannski tærari hljómur í lagasetningunni ef þau sjónarmið og öll sú þekking sem gjarnan birtist í umsögnum með málunum fengi meira vægi í almennri umræðu hér inni.