150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:52]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig langar að taka undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að það er fráleitt að gera kröfu um að málfrelsi þingmanna sé takmarkað á þeim grundvelli hvort þeir séu í jakka eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að auðvitað eigum við að bera virðingu fyrir þessari stofnun og auðvitað eigum við að klæða okkur snyrtilega. Auðvitað eigum við að tala snyrtilega og hegða okkur snyrtilega, bæði innan og utan starfsvettvangsins, en það er líka þannig að hlutirnir þróast. Ég verð eiginlega að játa á mig ákveðið afbrot hér í dag. Það vill þannig til að ég fór í gallabuxur í morgun sem er, að mér skilst, alveg harðbannað. Ég veit ekki hvort þetta verður tekið fyrir á fundi forsætisnefndar, ég vona ekki. Ég vona að málinu sé hér með lokið. En ég bendi samt á að þetta eru fínar buxur sem ég keypti og með góðu merki. Það er kannski til marks um að það má alveg leyfa klæðaburði að þróast.