150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hugsa að þetta sé eina stofnunin þar sem enn er hlegið að því að karlmenn gætu mætt í kjól, eða karlmenn sem eru skráðir í þjóðskrá sem karlmenn; karlmenn sem hafa kannski helstu líkamlegu einkenni karlmanna. Það vill svo til að klæðaburður og tilætlunarsemi varðandi klæðaburð annarra er jafnréttismál í dag og við erum löngu komin á þann stað í umræðunni. Þetta er kannski ekki fyrsti hópurinn í samfélaginu sem þarf að vorkenna sjálfum sér yfir vinnuskilyrðum, við getum eflaust verið alveg sammála um það. En það er alger misskilningur að þetta komi jafnrétti ekki við. En ég er líka sammála hv. 7. þm. Reykv. n., mér finnst þetta ekki sérstaklega áhugaverð umræða, alla vega ekki hér í þingsal. Oft hefur verið kallað eftir því að við séum snyrtilega klædd í þessum umræðum og ég er sammála, virðulegi forseti, og ég heyri ekki betur en að allir hér inni séu sammála. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson er snyrtilega klæddur og kom hingað í pontu snyrtilega klæddur. Hann kom bara ekki hingað í sama dressi og íhaldssamari og að (Forseti hringir.) jöfnu eldri karlþingmenn ætlast til. (Forseti hringir.) Engin vanvirðing er fólgin því, virðulegi forseti. Samfélagið þróast úr því að setja allt fólk í eitthvert box, (Forseti hringir.) við erum að reyna að komast út úr því í jafnréttisumræðunni í dag.