150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[10:46]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér fjöllum við um mjög stóran og mikilvægan málaflokk, þann lagabálk sem lyfjalögin eru, og við höfum unnið töluvert í þessu í nefndinni. Margar og góðar breytingar hafa verið gerðar á þessu lagafrumvarpi frá því það var lagt hér fram og helstu athugasemdaefni frá umsagnaraðilum hafa verið tekin til greina. Ég fagna því sérstaklega að við opnum á sölu lausasölulyfja þar sem er ekki apótek til staðar. Mér finnst það mjög stórt og gott skref sem við erum að stíga þar til að tryggja aðgengi að nauðsynlegum lyfjum oft og tíðum víða um landið og þá fáum við vissa reynslu á það. Einnig höfum við fjallað töluvert um, og frekar rýmkað en ekki, undanþáguna frá tveimur lyfjafræðingum og líka gert mikilvægar breytingar varðandi lyfjanefnd Landspítalans þannig að ég tel að málið sé algjörlega tilbúið til samþykktar.