150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[15:35]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ef það hefur farið fram hjá einhverjum þá stöndum við hér og ræðum breytingar á fjármálastefnu áranna 2018–2022. Tilefnið er auðvitað öllum ljóst, útbreiðsla á veirufaraldri sem kom okkur í opna skjöldu og hefur herjað á heimsbyggðina nú í hálft ár og haft stórkostleg áhrif á hagkerfi heimsins og ekki síður Íslands og við vitum auðvitað ekki hvernig hann mun þróast. Þess vegna ætla ég ekki að halda því fram að það séu ekki nægar málefnalegar ástæður til að breyta stefnunni á þann hátt að það geri okkur kleift að sigla í gegnum þetta erfiða efnahagsskeið sem áfallaminnst og án þess að það rústi atvinnulífi þjóðarinnar og vegi of þungt að heimilum landsins.

Það er rétt hjá hv. þingkonu Steinunni Þóru Árnadóttur að stefnan gefur möguleika á töluverðum hallarekstri og gæti þá veitt viðnámsþrótt, eins og hún orðaði það. Ég bíð spenntur eftir þeim áætlunum sem á að keyra eftir vegna þess að þetta er auðvitað bara eitthvert grunnplan. Það birtist væntanlega í fjármálaáætlun og fjárlögum. Við þurfum núna að leyfa okkur að tala dálítið langt fram í tímann vegna þess að þetta snýst ekki bara um að koma sér upp á yfirborðið heldur líka hvort við erum sammála um hvert við ætlum að stefna.

Hins vegar er full ástæða til að rifja það upp að þetta er í þriðja sinn á jafn mörgum árum sem við ræðum fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem á þó að vera óbreytt allt kjörtímabilið nema eitthvað stórkostlegt komi upp á, eins og nú hefur verið. Við tókum stefnuna nefnilega líka upp í fyrra þó að þau áföll sem þá riðu yfir hafi verið miklu fyrirsjáanlegri. Bæði þegar hún var lögð fram í fyrsta skipti og í annað skipti gagnrýndum við það einmitt og tókum undir með fjármálaráði að sú spennitreyja sem stefnan setti okkur í gæti orðið okkur dýrkeypt. Nú þykir mér gott þegar formaður fjárlaganefndar talar á þeim nótum. Við erum búin að breyta stefnunni tvisvar og þá dettur mér í hug að þetta sé að verða dálítið sérkennilegt. Sjálfstæðisflokkurinn talar gjarnan um sig sem flokk traustrar efnahagsstefnu, stöðugleika og jafnvægis, en hann er eiginlega farinn að minna á knattspyrnulið sem heimtar leikhlé reglulega í leiknum ef eitthvað gengur illa og vill fá reglunum breytt. Ég tek það fram aftur að það er ástæða til að breyta núna en gleymum því ekki að það voru gríðarleg átök á þinginu á sínum tíma þegar fjármálareglan var sett sem óbreytt myndi gera það að verkum að við þyrftum yfir þriggja ára tímabil frá árinu 2023 að reka ríkissjóð hallalausan. Og nú kemur hæstv. fjármálaráðherra upp hér í morgun og segir að hann telji það ekki skynsamlegt. Reglunum er breytt aftur og aftur vegna þess að flokkurinn virðist ekki geta sett sér sjálfum leikreglur sem hann þarf að fara eftir.

Með þessari fjármálastefnu eru sett fram almenn markmið um þróun opinberra fjármála sem breið sátt á að ríkja um, samkvæmt vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins, og hún skal eingöngu endurskoðast ef aðstæður eru óviðráðanlegar, svo sem vegna þjóðarvár eða alvarlegs efnahagsáfalls. Ég tek það fram aftur að þetta er tíminn til að taka upp stefnuna en ég er ekki viss um að það hafi verið í fyrra.

Þetta er stefnan en það verða ákvarðanir næstu mánaða sem verða mikilvægar. Þær munu ekki einungis hafa afgerandi áhrif á líf almennings og á samfélagið til skemmri tíma heldur um mjög langa framtíð. Þess vegna þurfa allar aðgerðir að miða við heildarhagsmuni og langtímaáhrif. Ég tel að við þurfum að miða að því að setja nýjan kúrs og byggja upp samfélag sem byggist á meiri sjálfbærni, meiri fjölbreytni og meiri jöfnuði en áður hefur verið. Jöfnuði vegna þess að það hefur sýnt sig alls staðar í kringum okkur að lönd sem eru byggð á miklum jöfnuði eru kraftmeiri, friðsamari og hafa meiri sóknarmöguleika. Fjölbreytni vegna þess að hún minnkar einfaldlega líkurnar á alvarlegum áhrifum; áföll sem munu ríða yfir íslensku þjóðina með reglulegu millibili hafa kannski ekki sömu áhrif ef við byggjum atvinnulíf okkar á fjölbreyttari stoðum. Sjálfbærni einfaldlega vegna þess að maðurinn er búinn að ganga þannig á gæði náttúrunnar, fyrir utan að við höfum gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar, að við verðum að byggja þetta á grænni sókn.

Á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Megintilgangur fjármálastefnunnar er að stuðla að efnahagslegu jafnvægi til lengri tíma og skapa þar með betri forsendur fyrir hagkvæmari nýtingu fjármagns og auðlinda. Stefnan er jafnframt tæki stjórnvalda til að sýna hvernig markmiðum um stöðugleika og sjálfbærni opinberra fjármála verði náð.“

Þá kemur aftur spurningin: Hvað er efnahagslegt jafnvægi? Hvað er hagkvæm nýting fjármagns og auðlinda? Ég býst við að það sé sennilega nokkur munur á því hver svörin verða eftir því hvaða stjórnmálamann maður spyr og hvaða stjórnmálaflokki hann tilheyrir. Ef við í Samfylkingunni erum spurð þá felst efnahagslegt jafnvægi í mikilli atvinnuþátttöku og eftirsóknarverðu fjárfestingarumhverfi sem ýtir undir öflugt og fjölbreytt atvinnulíf og getur þolað utanaðkomandi áföll — þarna komum við aftur inn á fjölbreytnina — og kraftmikil og útsjónarsöm fyrirtæki sem halda uppi hagvexti, skapa nýja vöru og þjónustu og fjölga störfum en líka það að allir einstaklingar í samfélaginu fái möguleika til að þroska hæfileika sína og nýta þá í eigin þágu og samfélagsins alls.

Þess vegna teljum við í Samfylkingunni að félagslegt réttlæti sé forsenda efnahagslegs stöðugleika og við munum auðvitað fylgjast mjög vel með áformum stjórnvalda og gagnrýna allar aðgerðir sem vega að þeim stöðugleika.

Það er algerlega klárt að mikill jöfnuður og sómasamleg lífskjör allra eru einfaldlega nauðsynlegur hluti af því að auka framleiðni, skilvirkni og verðmætasköpun. Það sjáum við allt í kringum okkur. Þess vegna er nauðsynlegt að verja velferðarkerfið í jafn djúpri efnahagslægð og við upplifum núna. Við styðjum við fólk sem missir vinnuna og fólk sem veikist, samhliða því að það þarf að ráðast í djarfar fjárfestingar sem tryggja því ný störf.

Við eigum ekki síst að einbeita okkur að því að létta undir og auðvelda rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og það getum við gert með margvíslegum hætti. Í fyrra lagði Samfylkingin fram frumvarp þess efnis og við gerum það aftur núna í breyttri mynd sem miðar við þessar aðstæður.

En í þessari ríkisstjórn fer Sjálfstæðisflokkurinn, hugmyndafræðilegur andstæðingur Samfylkingarinnar, með töglin og hagldirnar í ríkisfjármálum. Dæmin sýna okkur að svör Sjálfstæðisflokksins við þessar aðstæður eru önnur en okkar. Þau eru oft niðurskurður, jafnvel þótt hann sé klæddur í dulbúning eins og hér, ofuráhersla á ófrumlegar og íhaldssamar fjárfestingar og jafnvel varðstöðu um núverandi kerfi. Þó að ný fjármálastefna sem hér er til umræðu geri það mögulegt að ríkissjóður verði rekinn með halla og talað um að ekki verði farið í sérstakar aðhaldsaðgerðir er samt almennt enn þá 2% aðhaldskrafa á allar opinberar stofnanir, minna á heilbrigðis- og menntastofnanir.

Herra forseti. Mér fannst áhugavert í morgun að hlusta á umræðu um skýrslu forsætisráðherra. Það vakti athygli mína að fulltrúar stjórnarliðsins skiluðu nánast auðu þegar kom að pólitískri framtíðarsýn og grundvallarumræðu. Þau birtust miklu frekar sem einhverjir alþýðufræðimenn sem ræddu fram og til baka um sóttvarnir þó að þau gerðu það ekki eins nákvæmlega og Alma, Þórólfur, Thor og Kári. En kannski er of langt á milli þessara flokka þegar kemur að grundvallaratriðum til að þau þori að birta þann ágreining hér í upphafi erfiðs þingvetrar. Það er hins vegar nauðsynlegt að fá þessa skýru sýn fram og við munum kalla eftir henni frá einstökum flokkum í vetur.

Ég bíð með frekari umræðu þar til seinni umræða hefst um málið þegar við höfum heyrt frá fjármálaráði og lesið umsagnir fjölmargra hagsmunaaðila.