150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er aðeins vikið að því að litlu hafi verið svarað um það hvaða valkostir hafi komið til greina. Ég tel mig hafa rakið það í stuttu máli að við settum okkur ákveðin meginmarkmið og þau hjálpuðu til við að gera upp á milli þessara ólíku valkosta. Eins og hv. þingmaður hefur nefnt hér þá hafa ríkissjóðir fengið flugfélög í fangið víða. Ég hef látið þess getið að það er merkilegt í tilviki Icelandair að félagið hafði burði til að lifa af þá ótrúlegu storma sem hafa geisað á þessum markaði undanfarna mánuði, alveg fram á þennan dag. Það er eitt og sér, myndi ég segja, afrek í alþjóðlegum samanburði þar sem hvert stóra félagið á fætur öðru hefur lent í algerri neyð og ríkin hafa stigið hvert inn á eftir öðru og þá hefur oft þurft að taka ákvarðanir yfir nótt eða næsta dag. Við höfum haft marga mánuði til að undirbúa ákvörðun. Félagið hefur unnið gríðarlega mikið starf og ég tel að af öllum þeim tilvikum sem ég hef horft til í nágrannalöndunum þá höfum við byggt upp leið sem er miklu líklegri til að lágmarka áhættu fyrir almenning en öðrum hefur tekist að gera. Það liggur einfaldlega fyrir og það þarf ekkert að rannsaka það að með því að ríkið fari að taka eignarhlut í félögunum sé mesta áhættan almennt tekin. Þar er allt sett undir og menn stilla sér upp í kröfuröðinni fyrir aftan alla aðra. Hlutafé er það sem tapast fyrst. Með því að veita beint lán tækjum við líka meiri áhættu en með þeirri aðferðafræði sem við höfum byggt upp hér, þar sem við látum á það reyna að félagið bjargi sér sjálft á sundi í ólgusjó áður en reynir á þá höfum við gefið því tíma og hann hefur verið nýttur (Forseti hringir.) vel til þess, sem mér finnst skipta miklu máli, að lágmarka áhættuna sem fylgir ríkisábyrgð.