150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:42]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að þetta mál sé ansi flókið, eins og umræða dagsins sýnir, því að ég held að flestum þingmönnum sé umhugað um hagsmuni almennings þegar kemur að samgöngum milli Íslands og umheimsins, hversu mikilvægar þær eru og hversu mikilvægu hlutverki Icelandair hefur gegnt í þeim efnum. Icelandair hefur verið ábyrgt fyrir um 66% af samgöngum til Íslands á hverju tímabili a.m.k. Það er alveg óumdeilt í mínum huga að Icelandair er svokallað kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Sú skilgreining liggur fyrir. Þau fyrirtæki eru ekki eins og hver önnur fyrirtæki. Það eru brýn rök að mínu mati að huga sérstaklega að slíkum fyrirtækjum með aðstoð, ekki síst á tímum eins og þessum. Við sjáum að Ísland er að ganga í gegnum sína dýpstu kreppu í 100 ár og við sjáum að ferðaþjónustan, sem er ein helsta atvinnugrein Íslands, verður fyrir afskaplega miklu höggi. Icelandair er augljóslega burðarás í íslenskri ferðaþjónustu. Þess vegna finnst mér það fullkomlega réttlætanlegt að ríkið komi með einum eða öðrum hætti til aðstoðar til Icelandair. Auðvitað þarf að gæta að vissum skilyrðum og jafnræði o.s.frv., en það sem mér finnst mikilvægast er að tryggja hagsmuni almennings í fyrsta lagi, og hagsmuni starfsfólks. Mér er ekkert sérstaklega umhugað um hagsmuni hluthafa hvað þetta varðar, enda á að þynna þá út í nánast ekki neitt, sem er rétt, held ég, hvað þetta varðar.

Það er hins vegar áhugavert að rifja það upp að markaðsvirði Icelandair var hæst 180 milljarðar, að mig minnir. Hugsið ykkur, 180 milljarðar var markaðsverð Icelandair á einhverjum tímapunkti, en er núna komið í 5–6 milljarða. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hversu miklu lífeyrissjóðirnir, sem eru stórir hvað varðar eignaraðild í Icelandair, hafa tapað á þessari fjárfestingu. En það er svo sem önnur umræða. Lífeyrissjóðirnir eru auðvitað að gæta að fé okkar landsmanna og þeir þurfa að vera varkárir þegar kemur að öllum fjárfestingum, sérstaklega þegar um er að ræða svona miklar upphæðir. En þeir eru væntanlega með böggum hildar hvað þetta varðar og það sá svo sem enginn fyrir þá stöðu sem nú blasir við í hagkerfi heimsins með tilkomu veirunnar.

En við höfum bjargað fyrirtækjum áður. Við endurreistum innlendu bankana á sínum tíma eftir bankahrunið. Við skilgreindum íslensku bankana sem lífæð í fjármálaheiminum og Icelandair er afskaplega mikilvæg lífæð í samgöngum, hvort sem litið er til flutninga fólks eða vöru. Ég er ekki að segja að Icelandair sé eina fyrirtækið í heimi sem tryggt geti samgöngur, að sjálfsögðu ekki, en staðan er engu að síður sú að Icelandair er fyrir hendi. Icelandair byggir á miklum mannauði og reynslu og ákveðnu vörumerki sem við þurfum aðeins að líta til. Það er það sem mér er umhugað um, að bjarga verðmætum, tryggja samgöngur. Ég velti aðeins fyrir mér, af því að það eru ekki litlar upphæðir sem er um að ræða, að við erum orðin svolítið blind á þær upphæðir sem við tölum um í þessum sal af því að hér er um að ræða 15 milljarða ríkistryggt lán sem þeir geta dregið á ef á þarf að halda. 15 milljarðar eru ansi há upphæð og ég gat um í andsvari mínu við ráðherra fyrr í dag að þetta væri hærri upphæð en allar barnabæturnar, bara til að setja þá tölu í smásamhengi. Þetta skiptir máli, þetta er stór upphæð. Og þegar menn lána skiptir máli að menn tryggi lánið, veð. Veðréttur var ekki uppáhaldsfagið mitt í lagadeildinni en þá sá maður afskaplega vel hversu mikilvægt það er að veð séu góð og trygg. Þess vegna flaggaði ég þessari umsögn, sem er ekki löng, frá Ríkisendurskoðun, sem er önnur tveggja undirstofnana Alþingis, ekki ráðherrans, þar sem Ríkisendurskoðun bendir fjárlaganefnd sérstaklega á að það sé afar ósennilegt að þær tryggingar sem hér eru taldar fram, vörumerkið, bókunarkerfið og tvö lendingarslott, mæti hugsanlegu tapi ef allt fer á versta veg. Það vonast enginn eftir því og að sjálfsögðu vonumst við til að Icelandair rétti úr kútnum og ég hef trúað því að þeir geri það, ekki síst þegar bóluefnið kemur fram. En þetta er eitthvað sem við þurfum að taka mið af. Við þurfum að skoða og greina áhyggjur Ríkisendurskoðunar hvað þetta varðar. Hún veltir fyrir sér öðrum möguleikum í stöðunni og segir hér, með leyfi forseta:

„Annar möguleiki í stöðunni væri að ríkissjóður eignaðist hlut í félaginu ef gengið yrði á ábyrgðir eða hreinlega tæki rekstur þess yfir með það fyrir augum að finna síðar mögulega eigendur.“

Þetta eru vangaveltur Ríkisendurskoðunar um hvort við ættum að skoða þessa leið ef veðin duga ekki. Auðvitað reynir ekkert á veðin nema að fyrirtækið sé í miklum vandræðum. En við þurfum að hafa vaðið fyrir neðan okkur því að við erum að gæta hagsmuna almennings og skattfjár, sem allir vita að er ekki ótakmarkað. Það eru vangaveltur sem ég veit að fjárlaganefnd mun eflaust ræða sín á milli. Þetta er flókið mál. Við viljum tryggja hér öflugt flugfélag, við viljum huga að starfsfólki og almannahagsmunum, en við þurfum að sama skapi að huga að hagsmunum skattgreiðenda. Við vitum að hér eru aðilar úti í bæ að stofna flugfélag. Þeir hafa áhyggjur af samkeppnisstöðunni. Það er nokkuð sem við höfum nú þegar byrjað að skoða á vettvangi fjárlaganefndar. Við vitum að þetta skekkir hugsanlega markaðinn að þessu leyti, a.m.k. að mati þeirra aðila sem eru í samkeppnisrekstri við þetta flugfélag, þannig að við þurfum aðeins að huga að því hvernig við högum okkur hvað það varðar, því að það þarf að sjálfsögðu að tryggja jafnræði.

Það eru líka aðrir þættir sem ég vil draga fram. Ég fagna því að eitt af skilyrðum lánveitingarinnar sé að ekki sé greiddur arður og að félagið megi ekki kaupa bréf í sjálfu sér, sem er ein leið til að færa fjármagn úr félagi til hluthafa, það er girt fyrir það. En ég sé ekkert skilyrði sem lýtur að því að tryggja að stjórnendur félagsins geti ekki greitt sér himinháa bónusa eða ofurlaun. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort ráðherra hafi skoðað það með einhverjum hætti því að það er umræða sem við höfum tekið áður þegar kemur að aðstoð ríkisins gagnvart fyrirtækjum. En mér sýndist ekkert svoleiðis vera í þessu máli.

Við þurfum að sjálfsögðu líka að hafa alveg á tæru hverjir eiga félagið. Ég veit að lífeyrissjóðirnir eru þarna og það er einhver sjóður þarna, fjárfestingarsjóðurinn PAR Capital Management. Við þurfum jafnframt að vita hverjir koma inn í félagið í útboðinu. Hvers konar félagi erum við að fara að lána eða veita lánalínu, eða hvað við köllum það? Við þurfum að vita við hverja við erum að makka. Og að sjálfsögðu þarf að fylgjast vel með hvernig þetta útboð gengur fyrir sig.

Mig langar samt að lokum að fordæma hegðun félagsins varðandi kjaradeilu við Flugfreyjufélag Íslands. Ég held að langflestir — ég veit það svo sem ekki, en alla vega blöskraði mér það framferði sem félagið sýndi gagnvart þessari lykilstétt í starfsemi sinni. Þetta var bara alger subbuskapur, ef ég tala hreina íslensku úr þessum sal, hvernig forsvarsmanns félagsins höguðu sér gagnvart þessari lykilstétt og ég vil fordæma það. Svona gera menn einfaldlega ekki, eins og þeir höguðu sér þegar kom að samskiptum við flugfreyjurnar. Ég vona að margir þingmenn geti tekið undir það.

En að lokum get ég svona hefðbundið kvartað yfir því að við fáum lítinn tíma til að skoða stórt mál. Það á að afgreiða það, eins og ég skil þetta, á þessum svokallaða þingstubbi. Þetta er stórt og mikið mál. Ráðuneytið segist vera búið að skoða það í allt sumar. Við erum að skoða þetta í dag og höfum örfáa daga til að gera það. Það er óþarfi að halda þinginu svona lengi frá svona máli. Þetta er ekki eitthvert flokkspólitískt mál, það er enginn að fara í einhverjar flokkspólitískar skotgrafir hvað þetta varðar og mig langar að hafa langflest Covid-málin þannig að við getum unnið svolítið saman. Ég meina það einlægt, ég held í raun og veru að þau myndu batna ef ráðherrar myndu hleypa fleirum að fyrr þegar kemur að svona stórum málum, það yrði meiri sátt um málin og hugsanlega myndu þau einfaldlega batna.

Að lokum þá held ég að ríkið hafi talsverðu hlutverki að gegna þegar kemur að því að aðstoða einkaframtakið, einkaaðila á markaði sem lenda í vandræðum. Ég held að þessar reglulegu kreppur okkar, eins ömurlegur og þær eru, sýni að besta kerfið er blandað hagkerfi. Við viljum að einkaframtakið fái að njóta sín, en að sama skapi þá hefur hið opinbera mikilvægu hlutverki að gegna. Við sjáum að óheftur kapítalismi í góðæri er ekki góður, hann skapar ójöfnuð og misskiptingu og mengun og annað slíkt. En óheftur kapítalismi í kreppu virkar ekki heldur því að það kallar á aðstoð ríkisins vegna þess tjóns sem ella mun hljótast. Samfylkingin og jafnaðarmenn um allan heim aðhyllast svokallað blandað hagkerfi þar sem ríkisvaldinu er beitt á tímum kreppu og síðan getum við haldið okkur til hlés þegar vel gengur. Ég held að það sé hin norræna leið sem margir Íslendingar aðhyllast og við sjáum einmitt að rík samfélög eru meira og minna fylgjandi slíku hagkerfi og þeim þætti sem við gerum ráð fyrir að ríkið hafi þar.

En annars, herra forseti, hlakka ég til þessarar vinnu á vettvangi fjárlaganefndar og að heyra fleiri sjónarmið varðandi helstu álitamálin.