150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[15:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að við þurfum að ráðast í gríðarlega atvinnusókn og skapa ný atvinnutækifæri fyrir það fólk sem hefur misst vinnu. Það er líka hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að atvinnuleysi er stærsta ógnin sem við stöndum frammi fyrir í dag. Og það er jafnframt rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að tillaga um að lengja tekjutengdar atvinnuleysisbætur er gríðarlega gott skref. En þar með er líka verið að viðurkenna að það getur enginn lifað á strípuðum bótum. Því hljóta stjórnarliðar hér að taka undir með hæstv. forsætisráðherra landsins og samþykkja tillögur um að hækka grunnatvinnuleysisbætur.