150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég bjóst alveg við þessu svari sem er afar skynsamlegt, þ.e. að við verðum að huga að fjölbreytninni til framtíðar. Maður sér það í samanburði við aðrar þjóðir í efnahagssamdrættinum að vægi ferðaþjónustu er meira hér en víða og hún er mjög stór þáttur í samdrættinum. Við þessar kringumstæður þurfum við með ráðum og dáð að koma ferðaþjónustu í gang aftur til að takast á við atvinnuleysið um leið og við hugum að fjölbreytninni.

Varðandi endurgreiðslur til kvikmyndagerðar er það rétt, sem hv. þingmaður kemur hér inn á, að það tækifæri er ekki farið frá okkur. Ég deili skoðun hv. þingmanns á því og það hefur líka komið fram að kvikmyndaver geti lengt tíma þeirra sem dvelja hér í tengslum við kvikmyndaverkefni. Ég held að við eigum að fara af fullum krafti í þetta í vinnu við fjármálaáætlun. Auðvitað er það rétt að við verðum stundum að vinna hraðar en við hreinsuðum þó upp allar endurgreiðslur í þessu kerfi okkar í vor þannig að við höfum tækifæri þarna, ég tek undir það.

Mér fannst athyglisvert hvernig hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að fjármálaráðuneytið væri á sjálfstýringu. Við ræddum hér hagræðingarkröfuna en er ekki einhver mótsögn í þessu? Ef við værum ekki með þessa innbyggðu hagræðingarkröfu, og ég kalla það jákvæðan hvata — Landspítalinn er með 70 milljarða framlag, 350 millj. kr. í hagræðingu sem snýr að stjórnun og skipulagi. Er ekki einhver mótsögn í því, talandi um sjálfstýringu, ef ekki væri krafa um að horfa alltaf til þess að gera hlutina með skilvirkari hætti þegar verið er að nýta almannafé?