150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[19:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágætissvör og hef svo sem ekki við það að bæta öðru en því að það er gott að hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, gerir sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að hér komi ekki einhver lausung í ríkisfjármálin vegna óvissusvigrúmsins. Um er að ræða verulega háar upphæðir og þess vegna er mjög brýnt að það verði ekki nýtt nema í þau verkefni sem eru tengd faraldrinum og hv. þingmaður kom ágætlega inn á það. Höfum í huga að þetta eru stórar upphæðir og það má lítið út af bregða. Ef nýta þarf allt óvissusvigrúmið vegna ástandsins þá eru skuldir ríkissjóðs komnar í 2.000 milljarða. Það eru gríðarlega háar upphæðir og þess vegna er mjög mikilvægt, eins og við í Miðflokknum höfum lagt áherslu á, að ráðdeildarsemi ríki í ríkisfjármálum. Margt má bæta í rekstri ríkisins sem við höfum talað fyrir, það má hagræða með ýmsum hætti og nýta þá það sem sparast til að styðja við bakið á fyrirtækjunum í landinu til þess að þau geti fengið öfluga viðspyrnu og ráðið til sín starfsfólk og bætt kjör þess sem er fyrir á þessum erfiðu tímum. Við horfum upp á gríðarlegt atvinnuleysi, það stefnir í 10% og fer hækkandi á landsvísu. Við þekkjum það öll að það er alvarlegur hlutur sem við verðum öll að sameinast um að vinna gegn, hvar í flokki sem við stöndum.