150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[19:42]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er alveg rétt að þetta er ekki einfalt mál. En hv. þingmaður nefndi einmitt að einkaneyslan innan lands hefði komið mönnum örlítið á óvart eða verið meiri en menn áttu von á, m.a. vegna þess að menn hafi ekki komist til útlanda o.s.frv. En ég óttast að það muni draga úr þessari einkaneyslu, að hún muni minnka umtalsvert af ýmsum ástæðum. Fólk var auðvitað bjartsýnt á að þetta yrði enn styttra og snarpara tímabil, að þetta tæki nokkra mánuði. Fólk var því til í að ferðast innan lands og eyða peningunum sem áttu að fara í utanlandsferðina, í pall og endurnýjun á húsnæði, þeir sem gátu það. En ég óttast að mjög hratt dragi úr þessu og því sé mikilvægt að við reynum eftir megni að passa upp á fólk sem er að snarfalla í ráðstöfunarfé vegna þess að það hefur misst vinnuna, að við höldum uppi ráðstöfunartekjum þess eins mikið og við getum. Það segi ég bæði vegna þess að halda þarf uppi einkaneyslu í samfélaginu en ekki síður vegna þess að það skapar öryggi, skapar meiri vissu. Það sem gerist við óöryggi og óvissu er að það verða félagslegar afleiðingar til framtíðar sem geta orðið okkur dýrar. (Forseti hringir.) Þess vegna held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að reyna að fylla upp í þetta eins og hægt er og halda utan um fólkið og gera fyrirtækjum kleift (Forseti hringir.) eftir mætti að ráða fólk og ef það getur ekki fengið vinnu að það hafi þá sameiginlega framfærslu.