150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Icelandair er í vandræðum. Icelandair er kerfislega mikilvægt fyrirtæki sem þúsundir starfsmanna og hundruð fyrirtækja reiða sig á. Samfylkingin vill gæta þessara hagsmuna en einnig að hagsmunum almennings og samkeppni. Við hefðum kosið að tryggja betur hagsmuni skattgreiðenda í þessari 15 milljarða kr. ríkisaðstoð. Hins vegar er óumdeilt að tryggingarnar fyrir þessu láni duga ekki. Við hefðum því viljað skoða mun betur þann möguleika ríkisins hafa svokallaðan breytirétt, þ.e. að við ákveðnar aðstæður geti ríkið breytt láninu í hlutafé. Önnur leið væri að útvíkka veðandlagið þannig að það myndi ná til hlutafjárins.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Af hverju er meiri hlutinn ekki til í að auka tryggingavernd ríkisins og um leið almennings með þessum hætti þegar hann veit að þær tryggingar, þau veð sem núna eru fyrir hendi duga ekki? Mig langar endilega að heyra rökin fyrir því af hverju meiri hlutinn var ekki tilbúinn að ganga skrefinu lengra til að gæta betur að hagsmunum ríkisins, en um leið værum við að gæta að hagsmunum Icelandair, sem við þurfum að sjálfsögðu líka að huga að.