151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú erum við að fjalla um fjármálaáætlun fyrir 2021–2025 og þar kennir margra grasa. Ég ætla að byrja þar sem ég endaði í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra því að ég fæ ekki betur séð en skúta Sjálfstæðisflokksins með hæstv. fjármálaráðherra í stafni sigli stolt til skerðingar. Þeir virðast vera mjög stoltir af þeirri undarlegu ráðstöfun að ef öryrkjar, og það gildir líka um ellilífeyrisþega að stórum hluta, fá einhvern arf þá eigi þeir að nýta hann sér til framfærslu. Skýringin á því er að þeir eiga ekki að fá neitt út úr kerfinu á sama tíma og aðrir fá ekki neinn arf, sem er algjörlega fáránlegt. vegna þess að þeir eru að borga með því fyrir hina. Það er verið að láta þá sem eru í almenna tryggingakerfinu borga fyrir aðra í almannatryggingar. Hversu ömurlegt getur það verið? Hvernig í ósköpunum er hægt að verja það? Og hvernig í ósköpunum geta bæði Framsókn og Vinstri grænir hoppað um borð í þennan bát?

Við verðum að spyrja okkur að því: Er þetta eitthvað samkrull fjórflokksins um að hafa þetta svona, að reyna enn og aftur að níðast á þeim sem síst skyldi með því að láta þá borga fyrir sig sjálfa? Á sama tíma mega þeir sem hafa það gott hafa sínar tekjur algerlega óskertar, hvort sem það er arfur eða annað, og þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af því.

Þessi fjármálaáætlun er mjög fjandsamleg almannatryggingakerfinu, þ.e. þeim sem þurfa að lifa í því, öryrkjum og eldri borgurum, vegna þess að það er ekki nein áætlun, ekki nokkur áætlun um að bæta hag þeirra sem mest þurfa á að halda. Við sjáum það bara á bæði málefnum öryrkja og eldri borgara. Það er talað um 2,5% hækkun hjá öryrkjum og 3% hjá eldri borgurum næstu fimm árin. Þeir segja það meira að segja sjálfir á bls. 87 í þessu 433 blaðsíðna plaggi að bætur almannatrygginga hækki að raunvirði. Raunvirði þýðir það bara að þessir hópar fá í mesta lagi hækkun vísitölu neysluverðs.

Það segir okkur líka aðra sögu ef við horfum á árin fram undan. Það á eftir að harðna enn á dalnum hjá þessum hópi eftir eitt til tvö ár. Guð hjálpi okkur ef þessi ríkisstjórn verður þá enn við völd. Hún hefur sýnt það svart á hvítu að þessi hópur hér er breiðu bökin í þjóðfélaginu, það á að auka byrðar hjá honum. Við tökum líka vel eftir því að í skattkerfisbreytingunum — sem betur var skattprósentan lækkuð hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar og það ber að þakka, það kemur þeim til góða og það kemur líka öllum öðrum til góða — er prósentan hækkuð lítillega í miðflokknum en það sem er merkilegast er að ríkisstjórnin hækkar ekki um krónu í hátekjuflokknum, ekki krónu þar sem ætti helst að hækka. Ef það væri eitthvert vit þá ætti bæði að hækka prósentuna hjá þeim með hæstu tekjurnar og taka líka persónuafsláttinn af þeim. Það segir sig sjálft að þeir sem eru með hæstu tekjurnar hafa ekki þörf á persónuafslætti ólíkt þeim sem eru með lægstar tekjur og eru að borga skatta núna. Það er auðvitað algerlega óþolandi að vera að borga skatta af framfærslu sem dugir ekki til. Með því er verið að setja fólk ekki bara í fátækt heldur sárafátækt.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins verður fyrir niðurskurði. Samt var verið að enda við að gefa út svar sem sýnir að 1.193 börn bíða, þar af bíða 584 eftir greiningu. Við höfum líka orðið vör við það að starfsfólk á BUGL er að segja upp, eftir því sem mér hefur verið sagt, vegna lélegra launa. Hvað erum við gera gagnvart börnum sem geta ekki varið sig? Foreldrar reyna sitt besta en það er ekkert hlustað. Nei, það á að skera niður. Þetta eru breiðu bökin þessarar ríkisstjórnar. Ótrúlegt. Hún er líka búin að finna önnur breið bök. Hún ætlar að skera niður NPA-þjónustu, notendastýrða persónulega aðstoð. Það þarf auðvitað að skerða hjá þeim sem geta ekki hjálpað sér, eru í hjólastól eða þurfa mikla aðstoð. Það eru breiðu bökin. Þar þarf að skera niður.

Hefði ekki verið nær að setja aðeins hærri skattprósentu á þá hæstlaunuðu eða skella á 6 milljarða kr. auðlegðarskatti sem er búið að taka af þeim sem eru hvað ríkastir og vita ekki aura sinna tal? Bankaskattinn? Þeir fá að halda sínu sem ríkastir eru en það þarf að skera niður hjá börnum í greiningu, með geðræn vandamál, hjá hreyfihömluðu fólki sem þarf nauðsynlega á NPA-aðstoð að halda. Það er fólkið sem á að skera niður hjá.

Ég segi fyrir mitt leyti að ef maður horfir á þetta allt saman er alveg með ólíkindum hversu vitlaust er gefið. Sumt hérna er kannski gott, ég sá að það á að setja upp miðstöð liðskipta á Vesturlandi. Skyldi þá verða séð til þess að hægt verði að gera þrjár aðgerðir fyrir hverja eina aðgerð í útlöndum sem fólk þurfti að fara í og getur ekki núna? Enda veitir ekki af, það bíða nærri 1.000 Íslendinga eftir liðskiptaaðgerðum.

Það er mikill metnaður. Það á að setja 500 milljónir í geðheilbrigðismálin á heilsugæslum. Þar er bið og komast ekki allir að sem vilja. Það er hægt að fara yfir þetta endalaust. Það er eiginlega merkilegt hvernig þessi ríkisstjórn getur leyft sér að koma fram við þá sem verst eru staddir. Og það sem er kannski merkilegast við þetta allt saman er að í þessari fjármálaáætlun opinberast hvernig hún ætlar að koma fram við þennan hóp í framtíðinni. Það er undir ykkur komið hvort þið viljið leyfa þessari ríkisstjórnin að vera áfram og gera það sem hún boðar. Hér segir að andleg heilsa fleiri Íslendinga sé slæm og fleiri með þunglyndi. Erum við hissa? Erum við hissa á því með þessa stjórn og fjórflokkinn við völd að andleg heilsa Íslendinga sé farin að gefa sig?