151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég held að að mörgu leyti séum við sammála. Við erum búin að setja frítekjumark fyrir atvinnutekjur en ég tel að þessir einstaklingar þurfi líka að hafa einhvern varasjóð. Ef þeir fá pening einhvers staðar verður líka að vera frítekjumark þar, þannig að það sé eitthvað varið. Fólk er að lenda í þeim ömurlegu aðstæðum að það fær peninga en gerir sér ekki grein fyrir því að ári seinna verður það skert, bæturnar teknar af því. Fólk notar þessa peninga í örvæntingu sinni, jafnvel til að kaupa skóladót fyrir börnin sín eða föt eða bara til losna við skuldir en svo skellur þetta margfalt á því til baka ári seinna í formi skerðinga. Það hlýtur að segja okkur það að þetta er mjög ósanngjarnt og er skelfileg staða að vera í.

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um eru heilbrigðismál. Finnst henni nóg að gert að setja 540 milljónir í geðheilbrigðismál í sambandi við heilsugæslu en á sama tíma á að skera niður hjá greiningardeild þar sem verið er að greina börn með geðræn vandamál og annars konar vanda sem hrjáir stóran hóp barna og veldur því að skólaganga þeirra er í uppnámi og þau geta orðið fyrir einelti? Er eðlilegt að gerð sé krafa um aðhald? Er ekki sjálfsagt að sjá til þess að þarna verði ekki skorið niður heldur bætt í?