151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin og ég er sammála því að það er auðvitað í fyrsta lagi náttúrlega alltaf best að þurfa ekki að taka lán, en það liggur alveg fyrir að við gætum þurft að gera dálítið af því í ljósi stöðunnar, sérstaklega ef það dregst eitthvað að ná ráða niðurlögum þessarar óværu og hvað þá ef bóluefni dregst.

Við erum hér með fimm ára áætlun og í endann á henni er farið að gera ráð fyrir dálitlum samdrætti. Við þurfum, miðað við það, að lækka skuldahlutfallið um 5% að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili eftir þessa áætlun. Þess vegna veltir maður fyrir sér hversu mikið má út af bregða frá þeim áformum sem hér eru lögð til til að áætlunin haldi. Hér hefur verið talað um að bæta bara endalaust í fjárfestingu og 1% af vergri landsframleiðslu er 30 milljarðar. Hversu mikið má út af bregða í því uppleggi sem við erum hér með til að þetta haldi?

Maður hefur eðli máls samkvæmt áhyggjur af skuldasöfnun ríkissjóðs en líka af heimilunum ef verðbólgan fer af stað og allt þetta sem við erum sífellt að fjalla um. Það er margt reifað í áætluninni en mér finnst kannski vanta einhver skrif eða greiningu um þetta, það er gert ráð fyrir bjartsýnisspá en svo er önnur spá sem áætlunin byggist á. En ef við reynum að færa okkur í einhver prósentuhlutföll: Hversu mikið þarf til að þessi áætlun raskist svo um munar og verðbólgan og annað fari af stað?