151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:07]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að við getum oft horft til Færeyinga og góðar fyrirmyndir sem þar eru. Ég hef einmitt kynnt mér hvernig þeir tóku á þessu með fullnægjandi hætti í almenningssamgöngum á vegunum. Vissulega er þar styttra vegakerfi og líka mun færra fólk, minni umsvif.

Varðandi það sem hv. þingmaður segir þá er auðvitað áskorun í því sem við höfum rætt fyrr í dag fyrir ólík sveitarfélög og af ólíkum stærðum að standa undir sömu þjónustu, ég tala nú ekki um þegar vegalengdir bætast þar ofan á. Þess vegna hefur ríkisstjórnin svolítið horft á það hvernig hægt er að styrkja sveitarfélögin. Ég nefndi að við ákváðum að styðja við málefni fatlaðs fólks og að sveitarfélögin stæðu svolítið með sömu fjármuni og í fyrra, áður en Covid kom, og einnig fjárhagsaðstoðina en þörf fyrir hana fer augljóslega vaxandi. Það er ofan í hluti eins og við gerðum í vor þar sem við settum 600 milljónir til að veita tímabundinn stuðning til lágtekjuheimila vegna tómstunda, til að jafna tækifæri barna til íþrótta- og tómstundastarfs, 540 milljónir til að stórefla heilsugæsluþjónustu, ekki síst heilsueflingu í heimabyggð og geðheilbrigðisþjónustuna. Við erum að setja í fjárlögin aftur sambærilega fjárhæð fyrir næsta ár. Við settum í vor 450 milljónir í að efla félagsleg úrræði og tryggja stuðning við viðkvæma hópa, við settum 157 milljónir til að fullfjármagna NPA-samninga á þessu ári og um 100 milljónir í að styrkja úrræði vegna heimilislausra sem fyrst og fremst voru hér í Reykjavík og á Akureyri.

Mer finnst við hafa reynt að standa frammi fyrir þessum áskorunum og hjálpa sveitarfélögunum með þær en ég get alveg sagt að það að gera betur akkúrat á næstu árum, verandi að reka ríkissjóð í halla, það er áskorun.