151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:34]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Stóra verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að finna atvinnu fyrir sem flesta. Stóra verkefnið er að finna leiðir til þess að koma ferðaþjónustunni aftur af stað. Eins og ég sagði áðan sáum við frétt af því núna í dag að flugumferð hjá Icelandair hefði dregist saman um 97%. Og þegar atvinnugrein, sem orðin var ein af stærstu atvinnugreinum þjóðarinnar, minnkar ekki heldur fer niður í núll þá hefur það áhrif.

Ríkisstjórnin hefur ekki útilokað neitt. Við komum með lengingu tekjutengda tímabilsins. Þó að hv. þingmaður hafi sagt að ég mætti ekki segja það hér í pontu þá er það guðsblessunarlega þannig að hver ræður því hvað hann segir og því segi ég: Við komum með lengingu tekjutengda tímabilsins. Við höfum ekki útilokað eitt eða neitt varðandi frekari breytingar. (ÞSÆ: Ég er að spyrja út í …) Þegar atvinnuleysisbætur fara hins vegar úr því að vera útgreiddar 20 milljarðar árið 2018 og í líklega tæpa 80 milljarða á yfirstandandi ári, þegar fjárlög gerðu ráð fyrir 36 milljörðum, er alveg ljóst að við verðum að skoða þetta allt í stóru samhengi. Ríkisstjórnin hefur ekki útilokað eitt eða neitt í þessu efni en stóra verkefnið er að koma atvinnulífinu af stað, koma hlutunum aftur í gang hér. Og ef eitthvað er þá á það að vera verkefni okkar að geta tryggt að þeir heildarfjármunir sem renna til atvinnuleysisbóta nái að trappast hraðar niður en við gerðum ráð fyrir. (Gripið fram í.) En erum við búin að útiloka að ráðast í frekari aðgerðir? Nei.