151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[21:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það eru ákvæði og markmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda inni í þessari áætlun á sviði landbúnaðarmála. Ég geri ráð fyrir því og veit ekki betur en að það sé í rauninni í fyrsta skipti frá því að þessi ríkisstjórn tók við sem þau markmið eru sett fram með þeim hætti sem þarna greinir. Það skal alveg viðurkennt að þekking manna á því sviði til að setja fram slík markmið hefur ekki verið mikil og er ekki mikil, hvorki innan greinarinnar né í stjórnkerfinu. Það er bara staðreynd mála. Það er ekkert langt síðan ríkisstjórnin kynnti áætlun sína í þeim efnum. Þar inni er landbúnaðurinn eða mitt ráðuneyti með átta aðgerðir.

Ég vil hins vegar undirstrika að bæði í sauðfjárræktinni og nautgriparæktinni fara áherslur bændastéttarinnar og stjórnvalda mjög vel saman og við höfum sett okkur markmið um að þær greinar verði kolefnishlutlausar árið 2040. Það kann vel að vera að hv. þingmanni þyki metnaðarlítið að setja það fram en það varð að samkomulagi einfaldlega út af því að báðir aðilar þessa samnings mátu veruleikann þannig að við þyrftum þann tíma til að ná því fram. Verkefnin sem þarna voru sett upp eru fjármögnuð og ég vil undirstrika hér að það er mjög mikill áhugi bænda á því að taka vel á í þeim efnum.