151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Með leyfi forseta hef ég mál mitt með beinni tilvitnun:

„Svo krakkar viti hve mörg göt eru í píkunni, það halda svo margir strákar að stelpur pissi úr leggöngunum. Til að draga úr því að unglingar verði óléttir eða fái kynsjúkdóma. Þetta verndar börn gegn ofbeldi. Svo þau viti að klám er ekki alvörukynlíf. Það er partur af mannréttindum að fá fræðslu um líkama sinn.“

Þessi orð eru hluti af ákalli ungmenna um aukna kynfræðslu. Undanfarið hef ég fylgst með Instagram-síðu sem nefndist Fávitar. Þar er margt fróðlegt og hvet ég fólk til að kynna sér hana um leið og ég þakka forsvarsmönnum fyrir gott og þarft framtak. Þar hefur farið fram kröftug, málefnaleg og góð umræða um samskipti fólks, framkomu og náin kynni. Fjöldamargar áskoranir hafa verið sendar til menntamálaráðherra og yfirvalda og fagna ég því að ráðherra hefur tekið boltann og ætlar að vinna áfram að þessum málum.

Það er alveg undarlegt í dag, og kom mér á óvart þegar ég fór að skoða þessi mál, að uppi eru hugmyndir um að trans fólk sé fólk sem skiptir um kyn. Það er alveg galið þegar um leiðréttingu er að ræða. Eða þá að fólk sé annaðhvort gagnkynhneigt eða samkynhneigt. Við erum miklu fjölbreyttari en það. Hér er greinilega verk að vinna. Við þurfum að fræða okkur betur og ræða þessi mál betur. Tökum ákalli ungmennanna okkar um að gera það. Þau vita hvað þau segja og það er mjög ánægjulegt að sjá að þau hafi áhrif á pólitíkina og komi sínum málum fram á málefnalegan hátt.

Mig langar að vitna í stúlku mér nákomna sem segir, með leyfi forseta:

„Það er sérstaklega mikilvægt að auka hinsegin kynfræðslu vegna þess að hinsegin kynlíf er líka eðlilegt. Sem hinsegin stúlku finnst mér sjálfri mjög leiðinlegt að hinsegin fræðsla sé svo gott sem engin.“

Hér er verk að vinna og ég fagna því að menntamálaráðherra hafi tekið þetta inn á sitt borð. Þetta skulum við vinna saman og bæta samfélagið okkar (Gripið fram í: Heyr, heyr.)