151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur fyrir góða brýningu. Mig langar til að ræða sóttvarnaaðgerðir. Í gær lagði sóttvarnalæknir fyrir heilbrigðisráðherra minnisblað sitt í 12 liðum um aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu. Liður númer sjö var um íþróttastarf og þar er mælst til að öllu keppnisstarfi í íþróttum verði frestað um tvær vikur. Þetta hygg ég að sé nokkuð sem fólk í okkar stöðu, sem horfir á ástandið með almennri skynsemi og vilja til úrlausna, geti sætt sig við. Þessar tvær vikur væri hægt að nýta til að átta sig á því hvort við erum að ná tökum á ástandinu og síðan til að átta sig á hvernig hægt er að halda þessu mikilvæga íþróttastarfi áfram, hvaða íþróttir sem um er að ræða. Við vitum öll hvert gildi íþrótta er fyrir börn og unglinga, forvarnagildið, heilsugildið og síðast en ekki síst almennt skemmtanagildi fyrir okkur og ekki er vanþörf á á þessum tímum.

En stuttu síðar kynnti heilbrigðisráðherra reglugerð sem sögð er byggja í öllum meginatriðum á minnisblaði sóttvarnalæknis. Þar hefur orðið breyting á og í stuttu máli, til þess að flækja þetta ekki frekar, þá er fótbolti leyfður en ekki aðrar íþróttagreinar. Munurinn er sagður vera sá að fótbolti sé stundaðar utan dyra og aðrar íþróttagreinar innan dyra, samt er sundið bannað og þannig mætti lengi telja. Þetta er ekki til þess fallið að efla samstöðu þjóðar sem fyrst og fremst þarf á samstöðu að halda til að komast í gegnum þetta. Ég verð að segja að ég bíð spennt eftir því hvernig heilbrigðisráðuneytið mun bregðast við tillögum frá íþróttahreyfingum sem alla jafna hafa sinnt sinni íþrótt innan dyra en eru nú að bjóðast til að vera utan dyra.

Það verður að vera eitthvert „system i galskabet“ í stað handahófskenndra ákvarðana þegar þær varða jafnframt mikla hagsmuni jafnmargra. Við verðum að treysta því að heilbrigðisyfirvöld hafi einhverja reglu á hlutunum (Forseti hringir.) en hlaupi ekki bara á eftir þeim sem kalla hæst hverju sinni.