151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Fjárlagafrumvarpið ber með sér gífurlega útgjaldaaukningu ríkissjóðs í mæli sem við höfum aldrei fyrr séð og er það nokkuð skiljanlegt í ljósi aðstæðna. Hverjar eru áherslur stjórnvalda? Nú þessa dagana þegar veirusmitum fjölgar með veldisvexti, vex stjórnsýslan einnig með veldisvexti. Þar er áberandi vöxtur stjórnsýslu umhverfismála og að ekki sé talað um stjórnsýslu forsætisráðuneytisins. Dagblöðin eru full af auglýsingum um laus störf í stjórnsýslunni og ráðuneytunum. Á meðan tala stjórnvöld um nýsköpun, að efla rannsóknir, rætt er um að efla innlenda framleiðslu, innlendan iðnað, íslenskan landbúnað, auka við innlenda grænmetisframleiðslu og auðvitað á að treysta alls kyns innviði.

Herra forseti. Er rétta leiðin til alls þessa að stórfjölga í ráðuneytum og stjórnsýslunni yfir höfuð, aðallega á höfuðborgarsvæðinu? Nei, báknið þenst út sem aldrei fyrr hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.

Í loftslagsmálum virðist ríkisstjórnin í vegferð án áfangastaðar. Sýndaraðgerðir eru þar efst á baugi, enda stefnum við hraðbyri í átt til þess að þurfa að greiða stórkostlegar fjárhæðir í sektir fyrir að standa ekki við skuldbindingar okkar í losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda. Hvernig er t.d. með aukna skógrækt til kolefnisbindingar? Nei, ríkisstjórn sýndaraðgerða í loftslagsmálum sér ekki hið augljósa; að skógrækt er einfaldasta leiðin til kolefnisbindingar, skapar störf, sparar gjaldeyri og kemur í veg fyrir að við þurfum að greiða himinháar loftslagssektir.