151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna. Hv. þingmaður gerir bruna og brunavarnir að umtalsefni. Við sjáum víða annars staðar, eins og í Ástralíu og Kaliforníu sem hv. þingmaður nefndi, elda kvikna sem hafa verið tengdir við breytingar á loftslagi, þ.e. við þá hlýnun jarðar sem nú á sér stað. Þessi viðfangsefni eru stór á heimsvísu.

Hv. þingmaður spyr hvað við séum að gera hér heima, hvort við séum með áætlanir þegar kemur að þessu. Brunavarnir eru eiginlega samstarf félagsmálaráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins. Skorradalur var nefndur og sá sem hér stendur þekkir ágætlega til þar. Þar er verið að reyna að vinna að því að gera aðstæður þannig að um flóttaleiðir sé að ræða. Þar er vissulega mikill eldsmatur. Þar hafa komið upp miklir þurrkar, í fyrra eða hittiðfyrra, sem ollu fólki miklum áhyggjum. Þannig að já, það er verið að reyna að vinna að þessum málum. Í það minnsta veit ég að það er gert á því svæði.

Mig langar að segja um þetta almennt að einmitt þessar breytingar á loftslagi skapa raunverulegan vanda og sérstaklega þegar við fáum tímabil þar sem þurrkar eru lengri heldur en við höfum átt að venjast. Við getum líka nefnt að þar spilar náttúrlega einnig inn í staðbundin landnýting, ef mikil sina er, mikil lúpína eða hvað það er. Það eru allt þættir sem geta skipt máli og þarf þá að taka með í reikninginn þegar metið er með hvaða hætti eigi að bregðast við atriðum eins og þessum.