151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

framlög til geðheilbrigðismála.

[10:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja eftir þessa ætluðu kennslustund í efnahagsmálum og stjórnmálum frá hv. þingmanni. Ég var að rekja fyrir hv. þingmanni að í fjármálaáætlun til fimm ára erum við að auka framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa um 7 milljarða að raunvirði á ári, þ.e. á síðasta árinu er aukningin orðin 7 milljarðar. Þetta er áhersla ríkisstjórnarinnar og sýnir að við ætlum að stórauka svigrúm heilbrigðisþjónustunnar í landinu til að gera meira og gera betur. Við erum þar fyrir utan nú þegar búin að setja inn á fjáraukalög þessa árs um hálfan milljarð í viðbót við sérstakt átak sem skrifað var inn í stjórnarsáttmálann og eyrnamerkt hefur verið geðheilbrigðismálum. Við erum að bæta sérstaklega ofan á það 540 milljónum sem lifa áfram inn á næsta ár sem sérstök tímabundin viðbótarfjármögnun þar sem geðheilbrigðisþjónustan þarf á auknu fjármagni að halda á þessum tímum.

Ég þarf enga kennslustund. Þetta er allt saman þegar komið fram í þingskjölum (Forseti hringir.) og að sjálfsögðu ætlar ríkisstjórnin að standa við það sem hún hefur sagt um þessi efni.